Rannsókn á broti dýr og tímafrek

Hér má sjá mynd af slá Vegagerðarinnar sem notuð er …
Hér má sjá mynd af slá Vegagerðarinnar sem notuð er til að loka Helliheiði. Ljósmynd/Vegagerðin

Ökumaður sem kemur að slá sem sett er við Hellisheiði þegar veginum er lokað vegna ófærðar sér skilaboð um að hann geti hlotið sekt, aki hann framhjá skiltinu inn á lokaða veginn. Þá er einnig tekið fram að aksturinn gæti haft í för með sér umtalsverðan kostnað, þurfi ökumaðurinn á aðstoð á halda.

Aki sami ökumaður að slá sem sett hefur verið niður við Öxnadalsheiði er aðeins tekið fram að aksturinn gæti haft í för með sér umtalsverðan kostnað þurfi ökumaðurinn á aðstoð að halda.  

Í báðum tilvikum er bannmerki á slánum sem gefur til kynna að allur akstur sé bannaður. Ákveði lögregla að kæra og sekta ökumann fyrir akstur á vegi sem lokaður er með slíku skilti, þarf hann að greiða 5.000 krónur, óháð því hvort hann ekur eftir Öxnadalsheiðinni eða Hellisheiðinni.

mbl.is hefur í vikunni fjallað um ferð átta Íslendinga yfir Öxnadalsheiðina. Þau lögðu á heiðina þegar hún hafði verið lokuð í um sex klukkustundir, festu sig í skafli á leiðinni og þurfti að kalla út átta björgunarsveitarmenn til að koma þeim til hjálpar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri verða ökumennirnir ekki sektaðir. 

Þurfa í auknum mæli að bjarga fólki

Umræddar slár voru teknar í notkun í byrjun febrúar á þessu ári. Áður hafði vegunum verið lokað með einfaldri tilkynningu, á færðakorti Vegagerðarinnar eða með bifreiðum.  Sláin fer yfir akreinina og lokar henni þannig að ekki er hægt að komast leiðar sinnar en bílar sem eru á leiðinni í hina áttina eftir hinni akreininni komast leiðar sinnar af veginum sem hefur verið lokað.

Þegar fyrsta sláin var tekin í notkun kom fram í frétt á vef Vegagerðarinnar að með auknum fjölda ferðamanna, erlendra og innlendra, væri nauðsynlegt að taka upp breytt vinnubrögð, öryggisins vegna. Reynslan hefði sýnt að björgunarsveitir þyrftu í auknum mæli að leggja á heiðar til að bjarga fólki í vondu veðri og var ætlunin með slánum og lokuninni á vegum að fækka þeim tilvikum og auka þannig öryggi vegfarenda.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni fór lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fram á að sérstaklega yrði tekið fram á skiltum sem sett eru upp í umdæminu að ökumenn gætu átt von á sektum.

Hugsanlegur umtalsverður kostnaður?

Hingað til hafa björgunarsveitir bjargað mönnum og mannslífum í sjálfboðavinnu. Aftur á móti eru ökutæki ökumanna sem lenda í vandræðum ekki alltaf tekin með þegar náð er í ökumanninn og farþega. Því gæti sá kostnaður sem nefndur er á skiltinu hugsanlega verið kostnaður ökumanna sem þurfa að láta að sækja bifreiðar sínar.

Heimilt er að sekta ökumenn sem fara inn á lokaða vegi sem eru vel merktir um 5.000 krónur. Erfitt getur reynst fyrir lögregluna að sanna að ökumenn hafi lagt á heiðar eða vegi eftir að þeim var lokað.

Lögregla þarf að hafa á hreinu hvort viðkomandi ökumaður hafi farið inn á svæðið og að hvort honum hafi átt að vera það ljóst að hann ók framhjá merki sem gaf til kynna að allur akstur væri bannaður og vegur lokaður.

Tímafrekt að sanna brot ökumanna

„Í miklu kraðraki og mikilli ófærð hefur lögregla svo mikið að gera að björgunarsveitir komast jafnvel einar um. Björgunarsveitir bjarga fólkinu og eiga samskipti við það en ekki endilega lögregla,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar af leiðandi geta komið upp tilvik þar sem ökumenn fá ekki sekt þó þeir hafi ef til vill brotið af sér.

Hafi lögregla ekki beina aðkomu að málinu, líkt og þegar björgunarsveitarmaður bjargar ökumanni sem lent hefur í vandræðum við akstur á lokuðum vegi, þarf lögregla að hefja rannsókn sem getur falið í sér mikla vinnu og kostnað.

Rannsóknin skilar síðan heldur litlu í ríkiskassann, eða tæplega fjögur þúsund krónum greiði ökumaðurinn innan mánaðar en fimm þúsund krónum ef hann greiðir eftir mánuð. 

Íslendingarnir verða ekki sektaðir

Segjast ekki hafa séð lokunina

Þetta skilti er að finna við slá sem sett er …
Þetta skilti er að finna við slá sem sett er niður þegar Öxnadalsheiði er lokað. Ljósmynd/Vegagerðin
Allur akstur bannaður.
Allur akstur bannaður. Ljósmynd/Vegagerðin
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert