Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Jónínu Benediktsdóttur fyrir ölvunarakstur. Jónína var sakfelld og dæmd í 30 daga fangelsi og svipt ökurétti ævilangt.
Jónína var ákærð fyrir að hafa ölvuð ekið bifreið úr bifreiðastæði við Reykjavíkurflugvöll við Þorragötu í Reykjavík uns bifreiðinni var ekið utan í járngrind við enda bifreiðastæðisins. Óumdeilt var í málinu að eftir að hún ók á járngrindina fékk hún vin sinn sem var með henni í bifreiðinni til að taka við akstrinum og sat hann undir stýri þegar lögregla stöðvaði aksturinn á Suðurgötu skömmu síðar.
Verjandi Jónínu sagði fyrir Hæstarétti að engin sönnun lægi fyrir um það hvenær Jónína hóf drykkju. Engin leit hafi verið gerð í bílnum að áfenginu sem hún keypti og ekki hafi verið rætt við afgreiðslufólk í flugstöðinni. Rannsókn lögreglu sé því verulega ábótavant og gegn neitun Jónínu sé ekki hægt að sakfella hana fyrir ölvunarakstur. Ekkert hnekki orðum hennar um að hún hafi hafið drykkju eftir að hún settist í farþegasæti bifreiðarinnar.
Í dómi Hæstaréttar segir að sá skammi tími sem leið frá því að Jónína kvaðst hafa hafið neyslu áfengis og þar til hún var handtekin samrýmist á engan hátt niðurstöðu alkóhólmælinga úr blóðsýni hennar, en fyrra blóðsýnið var tekið úr henni klukkan 11.53 og hið síðara klukkan 13.05 og var þá magn áfengis í blóði fallandi.
Frétt mbl.is: Jónína var 11 tíma í fangaklefa
Frétt mbl.is: Jónína dæmd í 30 daga fangelsi