Ísland er langt frá því að nálgast þolmörk sín hvað fjölda erlendra ferðamanna varðar, samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í erindi Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar Icelandair Group.
Erindið flutti Halldór á fjárfestafundi félagsins og leitaðist þar við að svara því hvort fjölgun erlendra ferðamanna til Íslands væri raunverulegt áhyggjuefni.
„Menn þurfa að horfa á þetta frá réttu sjónarhorni og þetta er tilraun til að gera það. Heildarfjöldinn yfir árið skiptir minna máli,“ segir Halldór í Morgunblaðinu í dag. Fjöldi ferðamanna hefur þrefaldast yfir háannatímann frá árinu 2003, þegar erlendir ferðamenn voru 15 þúsund talsins á dag, en árið 2014 er fjöldinn 45 þúsund á dag yfir háannatímann en 10 þúsund ferðamenn að meðaltali á dag utan háannatíma.