Hver keyrir þig heim?

Myndin sýnir sterk skilaboð.
Myndin sýnir sterk skilaboð. Af Facebook síðu lögreglunnar

Mynd sem að birtist á Facebook síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun hefur verið deilt tæplega sjöhundruð sinnum. Jafnframt hefur verið „líkað“ við hana 1550 sinnum á aðeins rúmum klukkutíma.

Myndin sýnir leigubílsstjóra, lögreglukonu, sjúkraflutningamann og útfarastjóra. Bakvið fólkið standa bifreiðar þeirra. Textinn á myndinni er einfaldur: Hver ekur þér heim um hátíðarnar?

„Við sem sjáum um þessi samfélagsmiðlamál hérna hjá lögreglunni komum þessu í kring. Ég hafði séð svipaða mynd frá bresku lögreglunni og mér fannst þetta svo sterk skilaboð. Myndin var tekin í gær og við birtum þetta rúmlega níu í morgun,“ segir rannsóknarlögreglumaðurinn Þórir Ingvarsson í samtali við mbl.is. 

„Skilaboðin sem þessi mynd sýnir eiga svo sterkt erindi á þessum tíma. Þetta kemur líka bara mjög vel út og er mjög smekklegt.“

Þórir segir að samfélagsmiðlar séu lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu alveg gífurlega mikilvægir. „Reynslan sýnir okkur að fólk nýtir þessa miðla til að vera í miklum samskiptum við okkur. Kannanir hafa jafnframt sýnt að samfélagsmiðlar eru orðin stærsta leiðin til þess að fólk hafi samskipti við lögreglu. Svona efni eins og við gáfum út í morgun þarf samfélagsmiðla því fólk deilir þessu, sýnir öðrum og tekur þannig þátt í forvarnarvinnunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert