Varðskipið Þór kom nýlega við í Þórshöfn í Færeyjum til að taka olíu. Olíutankar skipsins voru þá fylltir en þeir rúma svo mikið að ekki þarf að fylla á þá nema um það bil einu sinni á ári alla jafnan, að sögn Ásgríms L. Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar (LHG).
Hann sagði að varðskipin hefðu oft tekið olíu í Færeyjum í að minnsta kosti 15 ár ef ekki lengur. Olíuverðið hefur oft verið lægra í Færeyjum en hér á landi auk þess sem mikið munar um að varðskipin þurfa ekki að borga virðisaukaskatt af olíunni í Færeyjum.
Það þýðir umtalsverðan sparnað í rekstri LHG og gerir kleift að halda þyrlum og varðskipum meira úti en ella væri hægt, að sögn Ásgríms. Hann sagði að stofnunin, líkt og aðrar ríkisstofnanir, yrði að gera sem mest úr fjárveitingum.