Jólaandinn svífur yfir vötnum á fæðingardeild Landspítalans en þar hefur verið kveikt á kertaljósum og nóg er af malti og appelsíni, mandarínum og piparkökum á boðstólnum fyrir verðandi mæður sem dvelja á deildinni á aðfangadag. Fimm jólabörn hafa fæðst á deildinni frá miðnætti og segir Ingibjörg Ýr Óskarsdóttir, ljósmóðir, það fyrirséð að börnin verði fleiri í kvöld.
„Það er nú alltaf þannig, svona tölfræðilega séð,“ segir Ingibjörg létt í lund.
Hún segir fimm ljósmæður vera á vakt en rólegt var á deildinni þegar blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til hennar.
„Við tökum mjög ánægðar á móti þeim sem koma hérna inn í fæðingu. Það er alltaf opið,“ segir Ingibjörg.
Herlegheitin eru ekki spöruð á deildinni í kvöld og greinilegt að mikið sé lagt upp úr því að gestir fæðingardeildarinnar missi ekki af jólunum en boðið verður upp á humarsúpu í forrétt í kvöld, hamborgarhrygg með brúnni sósu, brúnaðar kartöflur og waldorf salat í aðalrétt og ris a la mande í eftirrétt.