Fínasta jólaveður verður um land allt í dag, á aðfangadag, og verður veðrið svipað því veðri sem var í gær, á Þorláksmessu. Samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini V. Jónssyni, veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands verður kalt um land allt í dag en lygnt og fínt veður. Einhver snjókoma sunnan og vestanlands á morgun. Vaxandi norðanátt á föstudaginn.
Á vef Veðurstofu Íslands segir að næsta sólahringinn verður Norðaustlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og að mestu léttskýjað. Dálítil él með ströndinni og allra syðst. Suðvestlæg 5-13 m/s á morgun, með snjókomu um vestanvert landið og stöku éljum NA-til í fyrramálið, annars léttskýjað. Þykknar upp með éljum fyrir austan annað kvöld. Frost 1 til 12 stig, kaldast inn til landsins.
Á föstudag (annar í jólum):
Vestlæg eða breytileg átt, víða 3-8 m/s og él. Vaxandi norðaustanátt og fer að snjóa N-til um kvöldið. Frost 0 til 10 stig, kaldast til landsins.
Á laugardag:
Minnkandi norðanátt. Él NA-til á landinu, en þurrt síðdegis. Léttskýjað S- og V-lands. Kalt í veðri.
Á sunnudag:
Suðvestan 5-15 m/s, hvassast nyrst. Skýjað V-lands, annars bjartviðri. Frost 0 til 10 stig, en hlánar við V-ströndina.
Á mánudag og þriðjudag:
Ákveðinn sunnanátt og rigning, en að mestu þurrt á NA- og A-landi. Hlýnandi veður.