Jólin spanna allt tilfinningarófið

Oddakirkja á Rangárvöllum
Oddakirkja á Rangárvöllum Ljósmynd Hrafn Óskarsson

Jólin dansa á milli gleði, friðar, sorgar, eftirsjár og væntinga á réttum eða röngum stöðum, segir Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur í Oddakirkju á Rangárvöllum í fallegri jólahugvekju sem hún ritaði fyr­ir mbl.is.

Mbl.is ósk­ar les­end­um sín­um gleðilegr­ar hátíðar og friðar um jól­in.

„Jólin eru svolítið eins og mandarína, sett saman úr mörgum laufum en samt ein heild og full af hollum vítamínum. Það var hefð heima hjá mér í æsku að lesa jólaguðspjallið áður en við borðuðum á aðfangadag. Loks var eitt árið komið að mér og ég setti mig í hátíðlegar stellingar en svo fékk ég hláturskast og gat ekki hætt að hlæja eða haldið áfram að lesa.  Ég uppskar skammir fyrir en að lokum tókst mér þetta, afi og amma sem voru hjá okkur spurðu mörg jólin eftir þetta hvort ég ætlaði nokkuð að fá hláturskast. 

Ég man það einnig þegar ég sem nýorðin prestur las jólaguðspjallið í minni fyrstu hátíðarguðsþjónustu í Þykkvabæjarkirkju kl. 18:00 á aðfangadag, ég fann í senn skelfilegan ótta, tilhlökkun og lotningu. 

Jólin eru þannig, þau dansa á milli gleði, friðar, sorgar, eftirsjár og væntinga á réttum eða röngum stöðum. Það er svo óendanlega gaman að gleðja og gleðjast en um leið getur sársaukinn vegna sorgar eða erfiðleika verið jafn nístandi og að standa illa klædd í fimbulkulda andandi stöðugt að sér frostköldu andrúmsloftinu hríðarbylnum. 

Jólin rúma þetta allt og við megum vera eins og okkur finnst og líður á jólum. Við megum vera eins og börn, gráta af því hlutirnir eru einhvern veginn ekki eins og þeir eiga að vera og hlæja af því að við ráðum einfaldlega ekki við gleðina sem hríslast um okkur.

Í kirkjunni upplifum við oft þessar sterku tilfinningar. Á sama deginum ryksugum við upp moldina sem féll af kistunni og berum í næstu andrá inn vatnið í skírnarfontinn. Við höfum á stuttum tíma horft í brostin augu sorgarinnar og augu full af gleði og eftirvæntingu.  Það er dýrmætt að geta mætt fólki við þessar margvíslegu aðstæður með okkar kristnu trú sem rúmar þennan dans milli vonar og gleði, sorgar og sársauka. Trúin er samsett úr þessum margvíslegum laufum sem í bæninni, samtali við Guð mynda heild.

Það er sterk tilfinning á aðfangadagskvöld að standa upp frá jólapappírsleifum og tómum ísskálum og ganga hljóð út í jólanóttina í átt að hinu heilaga, inn í  Oddakirkju og undirbúa miðnæturstund. Allt um kring er eitthvað sem ég get aldrei sama hvað ég reyni útskýrt til fulls. Þessa göngu getum við öll gengið með tilfinningar okkar að fjárhúsinu og lagt í jötuna. Þar mætum við Jesú sem tekur við þessu öllu, grefur og geymir í heyinu. 

Við sjáum einnig tilfinningar allra hinna sem þangað hafa einnig komið og finnum þennan sammannlega streng sem tengir okkur hvar sem við erum og hver sem við erum.  Við leggjum fram óskir, bænir, vonir og væntingar. 

Ég bið þess að við getum einnig gengið saman frá jötunni með hana í hjartanu til móts við verkefnin sem bíða okkar þegar það eru ekki jól, þar sem við lifum saman, reynum að sjá og finna fegurðina í hversdeginum bæði í sorg og hlátri. 

Lífið er hlátur og sorg á réttum og röngum stöðum verkefnið er að sjá samt alltaf á einhvern hátt fegurðina og trúa að við eigum samastað hjá barninu í jötunni, eitthvað sem er himneskt og jarðneskt,“ segir í jólahugvekju Guðbjargar Arnardóttur, sóknarprests í Oddakirkju.

Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur í Oddakirkju á Rangárvöllum.
Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur í Oddakirkju á Rangárvöllum.
Heiðmörk
Heiðmörk mbl.is
Skólavörðustígur í jólabúningi
Skólavörðustígur í jólabúningi mbl.isÓmar Óskarsson
Jólasveinar í Rammagerðinni
Jólasveinar í Rammagerðinni Ómar Óskarsson
Jólasveinar í Rammagerðinni
Jólasveinar í Rammagerðinni Ómar Óskarsson
Jólasveinar í Rammagerðinni
Jólasveinar í Rammagerðinni Ómar Óskarsson
Skyrgámur mætir í Þjóðminjasafnið
Skyrgámur mætir í Þjóðminjasafnið Ómar Óskarsson
Skyrgámur mætir í Þjóðminjasafnið
Skyrgámur mætir í Þjóðminjasafnið Ómar Óskarsson
Skyrgámur mætir í Þjóðminjasafnið
Skyrgámur mætir í Þjóðminjasafnið Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert