Ruslajól í Breiðholti

Ljósmynd/S. Andrea Ásgeirsdóttir

Íbúar í Breiðholti segja jóla­kveðjuna kalda frá Reykja­vík­ur­borg þetta árið en ekki tókst að tæma rusl úr tunn­um í mörg­um hverf­um. Þegar óveðrið gekk yfir borg­ina í síðustu viku þurfti að hætta sorp­hirðu fyrr en ella. Var það gefið út að sorp­hirðumenn yrðu leng­ur við vinnu fram að jól­um þannig að það myndi tak­ast að vinna upp töf­ina sem varð á sorp­hirðu og ná þannig að hirða allt rusl fyr­ir jól. Það gekk ekki eft­ir. Sorp­hirða verður eng­in fyrr en 27. des­em­ber þegar starfs­menn Sorp­hirðu Reykja­vík­ur mæta aft­ur til starfa eft­ir jóla­frí.

„Mér finnst svo leiðin­legt að heilt hverfi hafi verið skilið eft­ir. Ég veit að það var óveður en það sýn­ir bara að tíu dag­ar á milli sorp­hirðu er of langt, það má ekk­ert út af bregða. Nú eru jól­in og við erum með fulla ruslageymslu,“ seg­ir S. Andrea Ásgeirs­dótt­ir, íbúi í Írabakka 34.

„Við hringd­um í gær og það var lofað að þeir kæmu í dag en þeir sviku það,“ seg­ir Andrea og bæt­ir við að boðist hefði verið til þess að fara með tunn­urn­ar út á bíla­stæði en þeir hafi þrátt fyr­ir það ekki viljað sækja ruslið.

„Þetta verður ekki tæmt fyrr en eft­ir helgi. Við þurf­um bara að sitja uppi með fulla ruslageymslu. Ég get ekki einu sinni haft rusla­poka í renn­unni af því þær eru all­ar full­ar. Fólk verður bara að geyma ruslið inni hjá sér eða í svört­um poka í ruslageymslu. Við erum mjög ósátt við þetta,“ seg­ir Andrea.

Sorp­hirða held­ur áfram 27. des­em­ber

Ingi­mund­ur Ell­ert Þorkels­son, flokk­stjóri hjá Sorp­hirðu Reykja­vík­ur, seg­ir lítið um málið að segja annað en að það sé ekki búið að hreinsa rusl á mörg­um svæðum Breiðholts og ruslið verði tekið um leið og færi gefst.

„Allt á kafi í snjó í eina og hálfa viku hef­ur auðvitað áhrif á svona vinnu,“ seg­ir Ingi­mund­ur. Hann seg­ir Breiðholtið vera nán­ast eina svæðið þar sem sorp­hirða náðist ekki fyr­ir jól.

Aðspurður hvað olli því að íbú­ar Breiðholts sitji uppi með ruslið yfir jól­in seg­ir hann að rusl sé tekið eft­ir ákveðinni röð og Breiðholt hafi verið næst í röðinni.

Ljós­mynd/​S. Andrea Ásgeirs­dótt­ir
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert