Taki skóflu með sér í kirkjugarðinn

„Áður en komið er í kirkjugarðana er gott að huga að nokkrum grunnatriðum. Það er til dæmis hentugt að vera með litla skóflu með sér ef þarf að hreinsa af leiðum,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, en þúsundir bíla munu streyma í kirkjugarðana um jólin og tugir þúsunda gesta.

Sérstaklega vinsælt er að heimsækja leiði látinna ættingja á aðfangadegi og segir Þórsteinn að fólk þurfi að hafa með sér vænan skammt af þolinmæði. „Við erum búin að ryðja allar helstu leiðir. Það er líka góð spá um jólin þannig að við teljum ástandið nokkuð gott. Við erum hins vegar með hliðarstíga sem enn eru óruddir en það gerir ekkert til því fólk hefur nú gott af því að ganga aðeins,“ segir Þórsteinn.

Þórsteinn bendir á að Íslendingar séu duglegir að vitja leiða og þegar erlendir kollegar hans koma í heimsókn fallast þeim oft hendur yfir hversu mikil umferð sé um garðana. „Skylduræknin að heimsækja þá sem eru farnir er mikil meðal Íslendinga yfir hátíðarnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka