„Við breytumst í kaupfélag borgarbúa á jóladag,“ segir Daði Agnarsson, framkvæmdastjóri Fljótt og gott á BSÍ. Veitingasalan var opnuð kl. 9 í morgun og þegar er mikið að gera.
„Þetta er alveg ótrúlegt, það er eins og það hafi ekki verið opin búð í ár,“ segir Daði hlæjandi í samtali við mbl.is en opið verður til kl. 1 í nótt. „Það myndast biðröð og hún er í allan dag,“ segir hann en bæði veitingasalurinn og bílalúgurnar eru opnar. Daði segir að fjórtán manns standi vaktina hjá Fljótt og gott í dag og á von á að minnsta kosti 3.000-3.500 manns.
„Svona er þetta bara á jóladag hjá okkur,“ segir Daði en margir erlendir ferðamenn nýta sér m.a. veitingasöluna. Að minnsta kosti 1.600 ferðamenn munu fara í ferðir frá BSÍ í dag.
Margir virðast strax búnir að fá nóg að jólamatnum og kjósa þess í stað að fá sér pylsur, samlokur og hamborgara. Þá komi margir og fái sér morgunmat á staðnum. Daði á von á því að selja að minnsta kosti 1.200 hamborgaratilboð í dag og segir starfsfólkið vel undirbúið fyrir daginn.
„Og við erum að bjarga fólki með ýmislegt annað, til dæmis klósettpappír sem við erum nú ekki að selja venjulega,“ segir Daði. „Þetta bara breytist í kaupfélag borgarbúa.“
„Þetta er mjög gaman,“ segir Daði sem er augljóslega í jólaskapi. Hann ætlar að standa vaktina í allan dag. Með bros á vör.
Að minnsta kosti ein matvöruverslun er opin á höfuðborgarsvæðinu í dag en það er Pétursbúð, Ránargötu 15. Hún verður opnuð á hádegi.
Veist þú um sjoppur eða matvörubúðir sem eru opnar í dag? Sendu okkur póst á netfrett@mbl.is