„Nú býðst okkur að taka við ljósinu“

Dómkirkjan í Reykjavík.
Dómkirkjan í Reykjavík. mbl.id/Ómar Óskarsson

„Í dag er okkur kunnugt um myrkur um víða veröld,“ sagði Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, í predikun sinni í Dómkirkjunni í dag. Það er bæði umhugsunarefni og staðreynd að mannslífin eru lítils metin víða.“

Agnes sagði að víða væri litið á menntun stúlkna sem ógn við samfélagið en ekki til uppbyggingar þess. „Þannig var yfir tvö hundruð nígerískum skólastúlkum rænt af heimavist í skjóli nætur. Þar voru á ferð fullorðnir karlar, félagar í hryðjuverkasamtökum, sem höfðu það að markmiði að koma í veg fyrir að ungar stúlkur gætu látið framtíðarvonir sínar rætast. Stúlkurnar og foreldrar þeirra vissu um hættuna sem fylgi því að fara í skólann en vonin um að menntunin færði þeim betra líf var óttanum yfirsterkari. 

Því miður er þetta veruleiki margra eins og glöggt hefur komið fram hjá friðarverðlaunahafanum Malölu Yousafzai, sem talibanar skutu næstum til bana vegna baráttu fyrir menntun stúlkna. Hugrekki hennar ætti að vera okkur hvatning til að grípa til aðgerða til að tryggja örugga skólagöngu allra barna, hvar í heiminum sem þau búa.“

Víða myrkur í íslensku samfélagi

Agnes sagði að einnig væri hægt að líta sér nær, því myrkrið er víða í samfélagi okkar. „Það búa ekki öll börn við mannsæmandi aðstæður. Veraldleg fátækt er því miður staðreynd hér á landi og ófriður birtist í mörgum myndum á heimilum og á götum úti. Því miður búa margir við óöryggi, fólk á öllum aldri, bæði börn og eldri borgarar og allir aldurshópar þar á milli. Ekki má heldur gleyma þeim sem leita hér skjóls, þeim sem eru á flótta frá heimalandi sínu, hælisleitendum, sem fá ekki blíðar viðtökur á flótta sínum, heldur eru þeir færðir bak við lás og slá um stund ef í ljós kemur að vegabréfið er falsað. Enn önnur birtingarmynd myrkursins í samfélagi okkar er notkun vímuefna sem getur tekið burt mennskuna og haft lamandi áhrif á fjölskyldur og vini. Þó það sé ekki stríð í eiginlegri merkingu hér á landi er ljóst að við heyjum stríð við myrkrið.

Nú býðst okkur að taka við ljósinu. Hinu sanna ljósi, sem upplýsir hvern mann. Það er í heiminn komið, hann, Jesús Kristur gengur með okkur veginn í þessu lífi. Við þurfum vilja til að sjá ljósið, sjá Jesú Krist, koma auga á hið góða, sjá mynd hans í hverju barni. Flestir vilja sjá lífið í þess bestu myndum. Vilja sjá réttlæti og kærleika ríkja. Það er hlutverk kirkjunnar að koma þessum kærleiksboðskap á framfæri. Þar sem kirkjan er ekki bara stofnun heldur við öll sem tilheyrum henni er ljóst að áhrifa kirkjunnar gætir hvar sem einstaklingar ganga fram í nafni kærleika og friðar, í anda Jesú Krists. Leiðtogans sem meirihluti þjóðarinnar vill leitast við að fylgja.“

Agnes benti á að jólin snúist um kærleikann.  „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. (Jóh.3:16) Lausnarinn er fæddur vegna þín, til að brúa bilið milli þín og Guðs. Leyfum honum að ganga með okkur lífsveginn og gefa okkur trú til að verða til blessunar. Að við fáum dimmu í dagsljós breytt.“

Predikun Agnesar í heild.

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert