Tómas Árnason, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og seðlabankastjóri, andaðist á Landspítalanum í Fossvogi á aðfangadag jóla, þann 24. desember sl.
Tómas fæddist á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð 21. júlí 1923. Foreldrar hans voru Árni Vilhjálmsson útgerðarmaður og síðar erindreki Fiskifélags Íslands og Guðrún Þorvarðardóttir, húsmóðir. Tómas stundaði nám í Alþýðuskólanum á Eiðum 1939—1941 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1945. Fjórum árum síðar útskrifaðist hann sem lögfræðingur frá Lagadeild Háskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í alþjóðaverslunarrétti við Harvard Law School í Bandaríkjunum 1951—1952.
Tómas rak málflutningsskrifstofu á Akureyri 1949—1951 og 1952—1953, auk þess að starfa sem erindreki framsóknarfélaganna og blaðamaður við Dag. Tómas hóf störf í utanríkisráðuneytinu 1953 sem deildarstjóri varnarmáladeildar til 1960. Þá rak hann málflutningsskrifstofu í Reykjavík ásamt Vilhjálmi bróður sínum 1960—1972 og var framkvæmdastjóri Tímans 1960—1964.
Á árunum 1972-1978 var Tómas framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins og aftur 1983—1984. Hann var alþingismaður Austurlands fyrir Framsóknarflokkinn 1974-1984 en hafði áður tekið nokkrum sinnum sæti á þingi sem varamaður. Frá 1978 til 1979 gegndi Tómas embætti fjármálaráðherra og á árunum 1980-1983 embætti viðskiptaráðherra. Tómas var skipaður bankastjóri við Seðlabanka Íslands 1985 og gegndi þvi starfi til 1993.
Tómas var alla tíð mikill áhugamaður um íþróttir og stundaði ungur ýmsar íþróttagreinar m.a. frjálsar íþróttir, knattspyrnu og fimleika. Tómas var áhugasamur um fjallgöngur, skíði, veiði og skák, en frá miðjum aldri var golfíþróttin hans helsta tómstundagaman. Tómas lagði golfkylfuna endanlega á hilluna síðastliðið sumar.
Árið 1949 kvæntist Tómas Þóru Kristínu Eiríksdóttur frá Norðfiði en hún andaðsit 2007. Þau hjón eignuðust fjóra syni; Eirík (1950), Árna (1955) Tómas Þór (1959) og Gunnar Guðna (1963). Barnabörnin eru þrettán og barnabarnabörnin níu.