„Það er hefð fyrir því að forseti sæmi handhafa forsetavalds Fálkaorðunni, þar á meðal forsætisráðherra. Ekkert nýtt þar á ferð.“
Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, á Facebook-síðu sinni vegna frétta af því að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafi veitt Sigmundi stórkross Fálkaorðunnar fyrr í mánuðinum.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, var að sama tilefni sæmdur stórriddarakrossi.
DV greindi fyrst frá málinu í gær. Mbl.is hafði í kjölfarið samband við Guðna Ágústsson, formann orðunefndar, sem sagði að um hefð væri að ræða. Þá kom fram í frétt DV að fjölmiðlum hafi ekki verið tilkynnt um orðuveitinguna. Jóhannes hafnar því að um eitthvert leyndarmál hafi verið að ræða í þeim efnum.
„Það er heldur ekkert leyndó í gangi þó að ekki hafi verið send út fréttatilkynning með lúðrablæstri um eitthvað sem er hefðbundið,“ skrifar Jóhannes Þór einnig.
Frétt mbl.is: Sigmundur Davíð sæmdur fálkaorðu