Skrifstofa forseta Íslands segir að fáeinar orðuveitingar fari fram utan 1. janúar og 17. júní á ári hverju. Tekið er fram að ekki hafi verið tilkynnt sérstaklega um þær orðuveitingar með fréttatilkynningu.
Þetta kemur fram í tilkynningu vegna fréttaflutnings af því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi þann 13. desember sl. verið sæmdur stórkrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Hins vegar var ekki sérstaklega greint frá því.
Tilkynningin frá forsetaembættinu er svohljóðandi:
„Að gefnu tilefni og vegna fyrirspurna frá fjölmiðlum vill embætti forseta Íslands taka fram að sú venja hefur lengi ríkt að orðuveitingar fari fram á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, og nýársdag, 1. janúar, og fjölmiðlum sé gert viðvart um þær. Í kjölfar þeirra orðuveitinga sendir embættið jafnan fréttatilkynningu til fjölmiðla. Fáeinar orðuveitingar eru utan þessara tveggja daga, t.d. til sendiherra erlendra ríkja, handhafa forsetavalds, ræðismanna Íslands á erlendri grundu, vísindamanna og fræðimanna sem helgað hafa krafta sína íslenskum viðfangsefnum, o.fl., og hefur ekki verið tilkynnt sérstaklega um þær orðuveitingar en þær skráðar jafnharðan á lista yfir orðuhafa á svæði fálkaorðunnar á heimasíðu forsetaembættisins.
Hefðbundið er að handhafar forsetavalds, forseti Alþingis, forseti hæstaréttar og forsætisráðherra, séu sæmdir fálkaorðunni og athöfnin fari fram á Bessastöðum. Hið sama á við um orðuveitingar til sendiherra erlendra ríkja sem byggja á samskiptavenjum við viðkomandi ríki. Ekki er sérstaklega greint frá þessum orðuveitingum með fréttatilkynningu til fjölmiðla en þær skráðar á lista yfir orðuhafa á heimasíðu embættisins.“