Keyrt yfir 15 leiði og grafarkross

Aðkoman í Gufuneskirkjugarði er ekki góð.
Aðkoman í Gufuneskirkjugarði er ekki góð. Ljósmynd/ Íris Guðmundsdóttir

Tvisvar sinnum hefur verið keyrt yfir leiði í Gufuneskirkjugarði á síðustu dögum, fyrst daginn fyrir Þorláksmessu og svo aftur á jóladag. 

Í fyrri frétt mbl.is um málið er haft eftir Þórsteini Ragnarssyni, forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma að vitni hafi verið að atvikinu. Það mun eiga við um fyrri skemmdarverkin en myndin með fréttinni, sem einnig er hér að ofan, sýnir skemmdarverk sem unnin voru í gær.

Keyrði yfir stein sem lokaði stígnum

Helena Sif Þorgeirsdóttir, garðyrkjuverkstjóri í Gufuneskirkjugarði, segir að daginn fyrir Þorláksmessu hafi jepplingur fest sig í garðinum. Sá hafi m.a. keyrt yfir grafarkross. Þau skemmdarverk sem komið var að í gærkvöldi segir hún hinsvegar ljóst að hafi verið framin á stórum jeppa enda séu förin bæði breið og djúp. „Það eru allir grafarstígar lokaðir með steinhnullungum, en hann fer yfir hann,“ segir Helena. Hún segir að öllum ætti að vera ljóst að ekki sé leyfilegt að keyra um grafarstígana.

 „Það er búið að keyra þarna niður eina grafarlengju með u.þ.b. 15 leiðum. Ökumaðurinn hefur greinilega fest sig á nokkrum leiðunum og verið dreginn upp úr. Það var svona kaðall þarna sem hafði slitnað.“ 

Helena segir að bíllinn hafi spólað drullu yfir nokkra legsteina en að enn sé ekki ljóst hvort blómaker eða rammar hafi orðið undir. „Ef svo er eru þeir komnir á kaf og rispaðir og brotnir, við vitum í rauninni ekki hversu mikið tjónið er fyrr en snjórinn fer.“

Hún telur að þeir sem keyrðu bílana hafi gert ráð fyrir að frost væri í jörðu. Svo er hinsvegar ekki og þar sem mjúkt er í gröfunum geti jafnvel stóru jepparnir fests í þeim.

Siðlaust athæfi

Helena segist ekki skilja hvernig fólk getur gert annað eins.  „Þetta er náttúrulega bara siðlaust. Þarna er einhver að vitja sinna ástvina en leggur leiði 15 annarra í rúst. Það eru þarna bílastæði rétt hjá og fólk á að geta labbað þessa stuttu vegalengd,“ segir hún.

Vitni voru að óförum jepplingsins en enn hafa engin vitni stigið fram í máli jeppans. Bæði málin verða kærð á mánudag og eru þeir sem gætu hafa séð til bílanna beðnir um að hafa samband við lögreglu. Þá eru ökumenn bílanna hvattir til að gefa sig fram af sjálfsdáðum.

 Frétt mbl.is: Keyrt yfir leiði í Gufunesi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert