Skipta brók í bók og bók í brók

Í dag opnuðu flestar verslanir aftur eftir jólafrí og flykktust þangað landsmenn með ýmsar jólagjafir sem skipta þurfti. Í Kringlunni myndaðist löng röð fyrir utan Hagkaup og segir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, fjölda þeirra sem komu í verslanir Hagkaupa í dag til að skipta vörum vera svipaðan og hefur verið á undanförnum árum.

„Það er ein og hálf milljón viðskiptavina sem kaupa eitthvað í Hagkaupum í desember þannig þeir geta ekki alltaf hitt alveg í mark,“ segir Gunnar og bætir við að það sé partur af þjónustunni hjá Hagkaupum að bjóða upp á góðar skilareglur. „Þá er gott að geta valið úr einhverjum þeirra 60 þúsund vörunúmerum þegar þú kemur til baka,“ segir Gunnar.

Hann segir það helst vera afþreyingarefni; tónlist, bækur og kvikmyndir, sem fólk skilar eftir jól en þær vörur fara í miklu magni og því líkur á því að fólk fái fleiri en eitt eintak af slíkum vörum. Þá séu líka einhverjir sem hafi ekki fengið réttu ilmvatnstegundina í pakkanum.

„Eins og Pétur Jóhann sagði, það er verið að skipta brók í bók og bók í brók,“ segir Gunnar við blaðamann mbl.is, léttur í bragði. Hagkaup bætir við verslunarkassa til áramóta til að geta tekið á móti þeim fjölda gjafa sem viðskiptavinir þeirra þurfa að skipta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert