Eitthvað hefur verið um að ferðamenn, sem aka um landið með aðstoð leiðsögutækja, hafi farið villur vega í ófærðinni að undanförnu, að sögn varðstjóra í lögreglunni á Egilsstöðum.
Meðal annars hefur þurft að aðstoða ferðamenn á Skriðdal, Öxi og Hellisheiði eystri en sú leið er sumarvegur og verður næst rudd í kringum 17. júní.
Svo virðist sem leiðsögutækin bendi á stystu leið milli áfangastaða en því miður ekki alltaf þá leið sem er fær að vetrarlagi, að sögn lögreglunnar.
Að öðru leyti hefur verið fremur rólegt hjá lögreglunni á Egilsstöðum í nótt og í morgun fyrir utan að það hefur þurft að aðstoða fólk við að komast leiðar sinnar vegna ófærðar.
Á Austurlandi er þæfingur á Vopnafjarðarheiði og í Jökuldal annars er snjóþekja, hálka og éljagangur á flestum vegum á Austurlandi. Ófært er á Vatnsskarði eystra.