Það sem af er ári hafa fjórir látist í þremur banaslysum í umferðinni og hafa þau ekki verið færri síðan markviss skráning umferðarslysa hófst hér á landi, eða árið 1966.
Árið 1968, þegar skipt var yfir í hægri umferð, létust sex en mest hafa látist 37 á einu ári, árið 1977, að því er fram kemur í fréttastkýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
„Við stefnum að sjálfsögðu alltaf að því að enginn látist í umferðinni og fjögur banaslys eru fjórum of mikið. Engu að síður má alveg vekja athygli á þessum árangri í umferðaröryggismálum og vonandi náum við að upplifa ár þar sem ekkert banaslys verður. Það er alltaf okkar markmið,“ segir Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri umferðarslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, um þróun banaslysa í umferðinni.