Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir „nánast ekki neitt“ hafa verið hagrætt í ríkisrekstrinum frá efnahagshruninu haustið 2008.
Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hafi reynt að finna leiðir til hagræðingar en þau áform strandað á andstöðu hagsmunaafla í „kerfinu“. „Við höfum reynt að skera niður en reynslan hefur verið sú að undirstofnanir ríkisins verja sig með kjafti og klóm. Kerfið ver sjálft sig og notar fjölmiðla óspart til að mynda samúð með viðkomandi stofnun,“ segir Vigdís í umfjöllun um þetta málefni í Morgunblaðinu í dag.
Tilefnið er gagnrýni Samtaka atvinnulífsins (SA) á mikið vægi skatta í að mæta tekjutapi ríkisins eftir hrunið, í stað hagræðingar.