Hlé hefur verið gert á fundi samninganefnda Læknafélags Íslands og ríkisins sem hófst klukkan 10:30 í morgun. Að sögn Magnúsar Péturssonar, ríkissáttasemjara, munu deiluaðilar hittast aftur klukkan 15, og þá kemur í ljós hvort samningar geti náðst fyrir áramót.
„Við gerðum hlé á fundinum klukkan tólf og ég bað deiluaðila að skoða tiltekin atriði og koma með svör við þeim klukkan þrjú. Þá sjáum við hvort það verði framhald á þessu eða ekki,“ segir Magnús.
Aðspurður hvort um nýja nálgun sé að ræða segir Magnús að „það sé allt nýtt í þessari deilu.“ Þá segist hann vonast til þess að skriður fari að komast á deiluna, en það muni reyna á það seinnipartinn í dag. „Það má segja að viðræður standi yfir á meðan þetta er svona, og ég get búist við því að dagurinn fari í þetta,“ segir hann.
Verkfallsaðgerðir lækna munu hefjast á ný mánudaginn 5. janúar, náist samningar ekki. Þær aðgerðir munu hafa mikla röskun í för með sér á starfsemi Landspítalans, enda munu einstakir hópar lækna þá leggja niður störf í fjóra daga í röð, en ekki í tvo daga í röð eins og fram að þessu.
Verkfallsaðgerðir lækna, sem hófust þann 27. október sl., hafa þegar haft í för með sér að hundruð aðgerða á Landspítalanum hafa fallið niður og biðlistar lengst fyrir vikið.