Þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkti í dag tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins og forsætisráðherra, um breytingar á ríkisstjórn Íslands. Sigmundur mun á ríkisráðsfundi á morgun, gamlársdag, leggja til við forseta Íslands að Sigrún Magnúsdóttir, alþingismaður og núverandi formaður þingflokks framsóknarmanna, taki við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur gegnt því embætti samhliða starfi sínu sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstoðarmanni forsætisráðherra, en fundi þingflokksins er ekki lokið. Þar segir eftirfarandi:
„Sigrún Magnúsdóttir er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Hún á að baki farsælan feril í stjórnmálum auk þess að búa að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu. Sigrún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir ríki og borg og sat í borgarstjórn Reykjavíkur í 16 ár, m.a. sem formaður borgarráðs í 6 ár og formaður borgarstjórnarhóps Reykjavíkurlistans frá 1994 til 2002. Hún hefur setið í stjórnum margra fyrirtækja og stofnana borgarinnar og leitt mikilvæg verkefni, t.d. á sviði mennta- og fræðslumála. Sigrún var kjörin á þing vorið 2013 og hefur setið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og verið formaður Þingvallanefndar auk þess að gegna embætti þingflokksformanns.
Sigrún Magnúsdóttir:
„Umhverfis- og auðlindamál eru mér hugleikin og ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem bíða. Í mínum huga eru umhverfismálin mikilvæg fyrir framtíð lands og þjóðar, sér í lagi er varðar gróðurríki landsins og sjálfbæra nýtingu lífríkis hafs.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:
„Sigrún er reynslumikill, farsæll og heilsteyptur stjórnmálamaður sem nýtur trausts allra sem hún hefur unnið með á fjölbreyttum ferli. Sjónarmið og reynsla hennar vega þungt. Það verður mikill fengur í því að fá Sigrúnu Magnúsdóttur til liðs við ríkisstjórnina."“