Árangur 2014 traustur grunnur framfara

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í áramótaávarpi sínu að vonandi yrði það svo að litið væri til áranna 2014 og 2014 sem endurreisnartíma, ákveðins upphafsskeiðs þegar Ísland komst á rétta braut að nýju. Veigamikill þáttur í því væri samt að afnema gjaldeyrishöftin.

Hann sagði að árangur Íslands hefði ekki náðst að sjálfu sér og margir hafi lagt mikið á sig til að árangur þessi yrði að veruleika. Hann sagði að sem betur sem við stöndum saman, því mun meiri verði afraksturinn. Forsenda þess að ná árangri sé að hafa trú á okkur sjálfum, landinu okkar og getu íslenskrar þjóðar til að byggja upp og sækja fram.

Sigmundur Davíð sagði að á nýju ári muni ríkisstjórnin vinna að framþróun alls þess sem geri líf Íslendinga betra, hvort sem það er betri heilsa, fallegra og heilnæmara umhverfi eða meiri gleði. Að því vilji ríkisstjórnin stefna og með hverjum þeim sem leggja vilji hönd á plóg. Haldið verði áfram á grundvelli verðlagsstöðugleika og kaupmáttaraukningu.

Þá verði haldið áfram að bæta heilbrigðiskerfið þannig að það jafnist á við það sem best gerist í heiminum. Auk þess verði hrundið af stað lýðheilsuátaki á næsta ári. 

Ennfremur nefndi Sigmundur Davíð að á næsta ári verði hafist handa við það verkefni að ljósleiðaravæða allt landið. Þannig verði hver bær á landsbyggðinni tengdur hraðbraut upplýsinga og samskipta.

Sigmundur Davíð minntist einnig á skuldaleiðréttinguna sem hann sagði ekki aðeins hafa áhrif á árinu 2015 heldur næstu áratugi. 

Rétt sé því að líta fram á veginn og minnast þess að árangur ársins 2014 sé traustur grunnur framfara á árinu 2015.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert