„Í Ísafirði, höfuðbóli hinna afskekktu Vestfjarða á Íslandi, líkir lútherskur prestur æðardúni við kókaín. „Stundum hugsa ég að við séum eins og kókarunna bændurnir í Kólumbíu,“ segir hann. „Við [æðardúns safnararnir] fáum brotabrot af verðinu þegar varan lendir á götum Tokýó. Þetta er besti dúnn í heiminum og við flytjum hann út í svörtum ruslapokum.“
Svona hefst verðlaunagrein Edward Posnett, þrítugs Lundúnabúa, í pistlakeppni The Financial Times og Bodley Head útgáfunnar árið 2014. Er þetta í þriðja sinn sem keppnin er haldin en hundruðir greina eru sendar inn í keppnina ár hvert. Í sigurlaun hlaut Posnett 1.000 pund, eða tæpar 200 þúsund krónur en pistill hans, Eiderdown (ísl. Æðardúnn), fjallar um tengsl Íslendinga, anda og kapítalismans.
Í greininni segir Posnett frá því hvernig Íslendingar safna æðardúni án þess að drepa fuglana og oft án þess að raska ró þeirra. Hann veltir því upp að líklega sé helsta hættan sem steðji að söfnuninni tengd nýtingu á öðrum auðlindum landsins og bendir á að söfnun á æðardúni í Noregi hafi að einhverju leiti lagst af í kjölfar aukins olíuiðnaðar í landinu. Posnett segir aðferðir íslensku æðardúnsbændanna afar fjarri hefðbundnum heimi kapítalismans en segir þó raunina aðra þegar kemur að sölu og markaðssetningu vörunnar.
„Það sem lítur út eins og indæll, gamaldags og smávaxinn iðnaður utan frá er í raun kolkrabbi einokunar og kænskubragða,“ hefur Posnett eftir íslenska kaupsýslumanninum, Jóni Sveinssyni. „Klóraðu yfirborðið, fylgdu peningunum og myndin breytist fljótt úr friðsælu áhugamáli í miskunnarlaust arðrán.“
Posnett segir Íslendinga fá um 3 milljónir evra fyrir þau u.þ.b. þrjú tonn af dúni sem flutt eru út árlega en að Jón Sveinsson segi hinsvegar að söluverð dúnsins í smásölu sé tífalt það. „Safnararnir fá í raun lægri prósentu af smásöluverðinu en kaffibændur Afríku,“ segir Jón.