Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á 55 kíló af maríjúana í fyrra og hefur aldrei verið lagt hald á eins mikið magn af maríjúana síðan skráning hófst. Mun minna var haldlagt af amfetamíni, kókaíni og e-töflum. Fíkniefnabrotum fjölgaði engu að síður um fjórtán prósent milli ára.
Í afbrotatíðindum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2014 má finna bráðabirgðatölur um fíkniefnabrot. Þar segir að 1.219 mál hafi komið upp á árinu sem vörðuðu vörslur og meðferð fíkniefna. Komið var upp um aðeins færri slík brot árið 2013 eða 1.031, 892 árið 2012 og 744 árið 2011.
Lögregla lagði hald á mun minna af amfetamíni en fyrri ár eða 3,3 kíló sambanborið við 33 kíló árið 2013, tíu kíló áríð 2012, þrjátíu kíló árið 2011 og átta kíló árið 2010. Einnig var lagt hald á minna af kókaíni eða 847 grömm samanborið við 1,8 árið 2013 og 4,6 kíló árið 2012. Þá lagði lögregla hald á 1.309 e-töflur í fyrra en 14 þúsund árið 2013.
Mikil aukning varð hins vegar í magni af maríjúana sem lögregla lagði hald á eða 55 kíló í fyrra en 31 kíló árið 2013, 20 kíló árið 2012, 28 kíló 2011 og 25 kíló árið 2010.
Skemmst er að minnast þess að Íslendingur var í fyrra dæmdur fyrir að flytja úr landi maríjúana og sagði Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þá að framboðið hér á landi væri orðið svo mikið að menn sjá tækifæri í útflutningi.