Vöruverð hefur hækkað á vefsíðum nokkurra íslenskra fyrirtækja þrátt fyrir útsölur, virðisaukaskattslækkanir á efra þrepi og afnám vörugjalda. Forsvarsmenn Rúmfatalagersins og ELKO ítreka að engin brögð séu í tafli, heldur valdi villur í tölvukerfum þessum „hækkunum“.
„Mistökin felast í því að á gömlu myndinni sást ekki „verð áður“. Það hefur verið vandamál í tölvukerfinu þannig að það sést ekki alltaf,“ segir Magnús Kjartan Sigurðsson, framkvæmdastjóri Rúmfatalagersins, um mynd sem gengið hefur á samskiptamiðlum þar sem afsláttarverð á vöru í dag virðist hærra en upprunalegt verð fyrir áramót.
Um er að ræða heilsukodda sem kostaði 3.995 kr. 8. desember, en er í dag auglýstur á 20% afslætti á 4.796 kr. og upprunalegt verð sagt vera 5.995 kr. Magnús segir þetta þó eiga sér eðlilegar skýringar.
„Vikuna 3.-11. desember var koddinn á rúmlega 33% afslætti af þessu upprunalega verði, en því miður sást ekki upprunalegt verð á síðunni þá. Nú er hins vegar 20% afsláttur og verðið því hærra.“
Magnús bendir á að þó að vörur séu nú á útsölu gætu þær hafa verið með hærri afslætti áður, enda séu tilboð í hverri viku á völdum vörum.
„Þegar við setjum allt á útsölu geta á þeim degi verið dæmi um vörur sem hafa einhvern tímann verið með hærri afslætti. Við lofum því hins vegar að við erum ekki að reyna að plata neinn.“
Sambærileg mynd hefur gengið um samskiptamiðla frá vefsíðu raftækjaverslunarinnar ELKO, en þar er borið saman verð á þremur sjónvarpstækjum þann 15. desember annars vegar og hins vegar í morgun, 2. janúar. Öll höfðu tækin hækkað í verði, það dýrasta um tæplega 100 þúsund krónur. Óttar Örn Sigurbergsson, innkaupastjóri ELKO, segir þetta hins vegar eiga sér eðlilegar skýringar.
„Þessi verð voru ekki búin að uppfærast inni á vefsíðunni hjá okkur, en hún er í uppfærslu núna. Hún greip ekki verðbreytingarnar í nótt og við vonumst til þess að þetta verði bara búið í dag,“ segir Óttar.
Stærri raftæki sem borið hafa 25% vörugjöld eiga að lækka í verði um 21% núna um áramót. Þetta eru t.d. sjónvörp, útvörp, hljómflutningstæki og hátalarar, myndbandstæki og heimabíókerfi. Óttar segir að lækkunin hafi byrjað strax í haust.
„Við byrjuðum að lækka í september, og eitthvað í október, nóvember og desember. Rétt fyrir áramót lækkuðum við síðan allar vörur hjá okkur sem átti eftir að lækka. Öll verð ættu því að vera án vörugjalda núna.“
Óttar segir rafræna keyrslu skýra þá miklu hækkun sem birtist á einu tækinu. „Í versluninni er tækið á 399 þúsund. Þetta var rafræn keyrsla og hækkunin kemur til út af henni, þetta einstaka tæki hefur bara yfirsést hjá okkur vegna þess að það var á lagerhreinsun. Tækið er hins vegar á 399 þúsund, enda var búið að lækka það niður fyrir öll velsæmismörk og meira en sem nemur vörugjaldinu,“ segir Óttar.
Hann ítrekar hins vegar að verðið sé rétt innan verslunarinnar. „Í búðinni eru rafrænir merkimiðar sem eru allir uppfærðir og réttir, en þessi tölvumál geta verið erfið og flókin. Við reynum að gera þetta allt samviskusamlega og erum ekki að reyna að svindla á neinum. Það gengur ekkert til lengri tíma.“
Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, segist ekki hafa fengið ofangreind mál á sitt borð í dag. Hann ítrekar hins vegar að lækkana ætti að verða vart strax í dag vegna lækkunar efra þreps virðisaukaskatts.
„Þess má vænta að vörugjöldin gætu komið inn á einhverjum vikum enda eiga fyrirtæki mörg einhverjar birgðir keyptar með vörugjöldum, en virðisaukaskattsbreytingin á að skila sér strax í dag,“ segir Ólafur Darri.
Hann segir að deildin muni fylgjast með verðbreytingum næstu vikur.
„Við gerðum kannanir í haust þegar þessi breyting kom til tals. Þá reyndum við að ná okkur í einhvern upphafspunkt til að miða við. Við munum síðan fylgja því eftir á næstu dögum og vikum. Þetta getur verið flókið og erfitt fyrir einstaklinga að fylgjast með þessu sjálfir.“