Jón Gnarr situr við skriftir þessa dagana en hann er að vinna að sinni þriðju og síðustu bók um æskuár sín. Þær fyrri voru Indíáninn og Sjóræninginn en sú þriðja, Útlaginn, kemur út fyrir næstu jól og fjallar um árin frá 13, 14 ára aldri og til tvítugs. Jón er einnig að skrifa handrit að sjónvarpsþáttum.
„Þetta eru sorglegir gamanþættir sem fjalla um íslenska stjórnkerfið en mér hefur fundist vanta sjónvarpsþætti um það. Vinnuheitið er Borgarstjórinn og fjallar um borgarstjórann í Reykjavík. Þetta er 10 þátta sería sem er framleidd er af RVK Studios. Vinnan gengur vel en ég skrifa handritið ásamt fleirum, m.a. Pétri Jóhanni Sigfússyni en planið er að hann leiki aðstoðarmann borgarstjórans sem er kannski stærsta hlutverkið í seríunni.“
Jón er á leið til Bandaríkjanna og verður þar í nokkra mánuði til að taka þátt í verkefni á vegum stofnunar sem heyrir undir mannfræðideild Rice-háskóla í Houston í Texas. „Þetta verður ein önn og mun snúast um lýðræðismál og lýðræðismöguleika og samskipti í víðu samhengi. Þeim fannst ég svo áhugavert eintak af manneskju að þeir vildu hafa mig með og fannst sagan af Besta flokknum vera athyglisvert dæmi.“
Eiginkona Jóns er Jóhanna Jóhannsdóttir nuddari. Börn þeirra eru Frosti Örn Gnarr Jónsson, Dagur Kári Gnarr Jónsson, Margrét Edda Gnarr Jónsdóttir, Kamilla María Gnarr Jónsdóttir og Jón Gnarr Jónsson sem er 9 ára.