Íslendingar skoðuðu vefsíðuna Reddit mest allra þjóða árið 2014 ef miðað er við höfðatölu en þetta er meðal þess sem kemur fram á bloggsíðu Reddit. Næst á eftir Íslandi kemur Kanada, svo Bandaríkin, Svíþjóð og Ástralía. Á bloggsíðunni er ýmsum fróðleik um Reddit-árið 2014 gerð skil.
Reddit er afþreyingar-, frétta- og samfélagsmiðill þar sem skráðir notendur geta sent inn efni sjálfir, hvort sem það er texti eða tengill á aðra síðu. Notendur síðunnar kjósa svo um það efni sem birtist á síðunni „upp“ eða „niður“ og stjórna þannig hve sýnilegt efnið er á síðunni. Efnið á síðunni er flokkað eftir svokölluðum samfélögum (e. subreddits).
Segir þar að árið 2014 hafi flettingar á síðunni verið hvorki meira né minna en 71,25 milljarðar, átta þúsund samfélög voru virk, „póstarnir“ voru 54,9 milljónir talsins og athugasemdir á síðunni 535 milljónir.
Þá kusu notendur síðunnar tengla í samtals 3,79 milljarð skipti og athugasemdir í 2,01 milljarð skipti.
Á mynd sem birtist með uppgjörinu segir: „Ef þú hittir Íslending sem segist ekki skoða Reddit, þá er hann að ljúga.“ Ekki skal fullyrt um sannleiksgildið í þeirri alhæfingu Reddit-bloggarans en eitt er öruggt: Vefsíðan Reddit er vinsæl meðal landsmanna.