Vill líkjast hyggnum bónda

Sigrún Magnúsdóttir tekur við lyklunum að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Sigrún Magnúsdóttir tekur við lyklunum að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er svona svolítið óvenjulegt því þarna er ungur maður sem felur gamalli konu slíkt embætti,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir eftir að hún tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra í morgun. Hún segir vel ef hún getur annast umhverfið eins og hygginn bóndi. 

Sigrún tók við lyklum að ráðuneytinu úr höndum Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í morgun. Í samtali við blaðamann mbl.is sagðist hún vilja kynna sér málin betur og ræða við starfsfólk ráðuneytisins um hvað væri efst á baugi þar áður en hún gæfi út yfirlýsingar um áherslur sínar í embætti.

„Ég ætla ekki að koma hér eins og hvítur stormsveipur skipa fólki fyrir í einhver verk á fyrsta degi,“ sagði hún en hún vonast til að hugsa um embættið af yfirvegun og auðmýkt fyrir náttúru landsins.

Eitt stærsta málið í umhverfismálum á þessu ári er loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna í París í desember. Þar ætla þjóðir heims að reyna að koma sér saman um draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að takmarka loftslagsbreytingar.

Sigrún segir að það segi sig sjálft að loftslagsmálin séu með stærri vandamálum heimsins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og samflokksmaður Sigrúnar, vakti athygli í fyrra þegar hann sagði að loftslagsbreytingar fælu í sér tækifæri fyrir Íslendinga. Sigrún segir að það hafi verið vel sagt hjá forsætisráðherra.

„Því maður á alltaf að líta á allt sem ákveðin verkefni og finna þá leiðir til að leysa þau. Í því geta falist tækifæri,“ segir hún.

Heldur manni lifandi að taka að sér ný verkefni

Sigrún gerir þessi orð Sigmundar Davíðs að sínum þegar hún er spurð að því hvernig það leggist í hana að taka við ráðherraembætti, í því felist ákveðin tækifæri. Fyrir utan þau málefni sem henni hafi verið falið að sinna segist hún vonast til þess að persóna hennar sýni fólki og sanni fyrir því að lífið sé ekki búið þó að það komist á ákveðinn aldur. Sjálf er hún sjötug að aldri.

„Ef ég get orðið fyrirmynd að því að hvetja konur til dáða þá er það mjög af hinu góða,“ segir hún.

Sjálf hafi hún hafið háskólanám um sextugt. Það hafi hins vegar verið eins og hún hafi gert það þrítug því síðan þá hafi hún fengið hvert tækifærið á fætur öðru. Hún sé þeirrar skoðunar að það haldi manni lifandi að taka sífellt að sér ný verkefni.

Þá segist hún búa að því að hafa verið gift bónda en þeir séu oft manna meðvitaðastir um umhverfismálin. Þeir þurfi að hugsa um jörðina fyrir erfingja sína svo hún haldi áfram að skila þeim arði.

„Ef ég get stjórnað þessu málum eins og hygginn bóndi þá er það vel,“ segir hún.

Fyrri frétt mbl.is: Sigrún tók við lyklavöldum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka