Bæri að höfða mál gegn Markúsi

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. Morgunblaðið/Kristinn

„Ef allt væri með felldu bæri íslenska ríkinu að höfða mál gegn forseta Hæstaréttar til embættismissis,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari. Hann átelur fjölmiðla fyrir að þrýsta ekki á sama forseta að svara ásökunum á hendur honum sem koma fram í bók Jóns.

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Jón Steinar þar sem hann vísar í bók sína og segist með henni hafa upplýst þjóðina um brot Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar, gegn embættisskyldum sínum. Hafi það verið í tengslum við umsókn Jóns Steinars um embætti hæstaréttardómara.

Jón Steinar segir yfir allan vafa hafið að Markús hafi brotið vísvitandi gegn embættisskyldum sínum og þannig hafi hann farið gegn settum lögum. „En hann situr óáreittur áfram. Ekki hefur einu sinni komið fram opinberlega að helstu fjölmiðlar hafi óskað eftir viðbrögðum hans við þessari frásögn.“

Þá segir hann Markús þegja ásakanirnar í hel og að allir helstu fjölmiðlar landsins þegi með honum. „Hann þarf að þeirra mati ekki einu sinni að svara því hvort hann hafi eitthvað við frásögnina að athuga að efni til.“

Hann endar grein sína á að spyrja hvort þjóðin telji í lagi að dómarar við æðsta dómstól landsins brjóti af ásetningi gegn lögum við embættissýslan sína öðrum til saka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert