Pattstaða vegna viljaleysis ríkisins

Skurðlæknar að störfum.
Skurðlæknar að störfum. Ljósmynd/ Ásdís Ásgeirsdóttir

Helgi Kjartan Sigurðsson, formaður Skurðlæknafélags Íslands segir pattstöðu ríkja í kjaradeilum félagsins við íslenska ríkið. Engir fundir hafa verið boðaðir í deilunni en löngum fundi samninganefndanna lauk um miðnætti í gær án lausnar.

Helgi segir Skurðlæknafélagið hafa komið með tilboð á fund samninganefndar ríkisins í gær og að hann hafi verið bjartsýnn á að það væri að einhverju leiti lykillinn að lausn mála. 

„Ég hélt að við fengjum gagntilboð eða viðbrögð við skjalinu, sem varð ekki,“ segir Helgi og kveður félagsmenn áhyggjufulla. „Við höfum gríðarlega miklar áhyggjur af þessu ástandi, af því að okkur takist ekki að hefja viðreisn heilbrigðiskerfisins.“

Helgi segir ljóst að allir deiluaðilar geri sér grein fyrir ástandi heilbrigðiskerfisins en að skurðlæknum þykji yfirvöld skorta viljann til að leysa deiluna. Hann segir vissulega einhverjar líkur á því að deilan leysist áður en komi til verkfalls á ný en að hann sé ekki bjartsýnn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert