Kostnaður við áramótaskaupið var 26 milljónir króna í ár og er hann svipaður og hann var í fyrra. Til samanburðar var kostnaðurinn við framleiðsluna 31 milljón króna árin 2011 og 2012. Samkvæmt upplýsingum frá Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra RÚV, tóku um 50 manns þátt í gerð skaupsins í ár. Þar á meðal voru óvenjumargir leikarar ráðnir sem helgast af því að hver og einn lék í færri atriðum en gjarnan hefur verið.
Aðspurður segir hann að framleiðandi, leikstjóri og höfundar fái fasta greiðslu fyrir skaupið óháð því hve margar vinnustundir þeir leggja til verksins. „Oftast nær hefst vinna að hluta um mitt ár, stundum fyrr og stundum ekki fyrr en að hausti. Aðalskrifin fara svo fram að hausti og tökur hefjast vanalega í nóvemberbyrjun og standa fram í desember,“ segir Skarphéðinn.
Hann segir að umsjónarmenn og leikstjóri fái fullt frelsi og umboð til þess að hafa efnistökin eins og þeim hentar. „Í fyrra og fyrir þetta nýjasta skaup töldum við tímabært að kalla til sögunnar úrval af hæfileikaríkum konum sem tekið hafa þátt í gerð grínefnis í gegnum árin, sumpart í tilefni af því að 30 ár eru liðin síðan hið sama var gert með eftirminnilegum árangri. Í millitíðinni hefur konum í íslensku gríni fjölgað mjög, ekki síst í hópi höfunda, og því þótti okkur tilvalið að kalla til hóp kvenna sem spannar nokkrar kynslóðir í íslensku gríni,“ segir hann.
Líkt og önnur ár hafði fólk misjafnar skoðanir á skaupinu. Skarphéðinn bendir á að það sé ekki heiglum hent að gera öllum til geðs.
„Það er satt best að segja nett klikkun að höfundarnir vilji leggja annað eins á sig miðað við þær kröfur sem þjóðin gerir til skaupsins. Sama hvað hverjum og einum finnst um einstaka skaup þá er ég ekki viss um að þjóðin vilji breyta miklu varðandi fyrirkomulag í kringum það. Þetta er jú einn af hápunktum sjónvarpsársins ef ekki sjálfur hápunkturinn – í það minnsta sé tekið mið af áhuga, áhorfsmælingum og umtali.“
Frétt mbl.is: Árið endursagt án gríns