Legudeild krabbameinslækninga á Landspítalanum var lokað fyrir innlagnir á laugardag vegna nóróveirusýkingar. Þrír sjúklingar á deildinni hafa greinst með veiruna, og þrír til viðbótar hafa sýnt einkenni. Allir sex sjúklingar eru nú í einangrun. Þá hafa nokkrir starfsmenn þurft að halda sig heima vegna einkenna.
„Þetta er árlegur faraldur sem kemur mjög oft upp um þetta leyti,“ segir Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækninga á Landspítalanum, en nóróveira veldur bráðri iðrasýkingu og einkennin eru meðal annars uppköst, niðurgangur, kviðverkir og jafnvel hiti.
Hlíf segir ákvörðunina um að loka deildinni fyrir frekari innlagnir hafa verið tekna um helgina eftir að smitin þrjú voru staðfest, og sé það gert til að hefta útbreiðslu og smit. Hún segir lokun á heilli legudeild þó vera mjög bagalega og koma mikið niður á starfseminni. „Við megum illa við þessu núna. Eins og þetta hefur verið síðastliðið árið þá hefur rúmanýtingin verið nánast hundrað prósent og þegar heil bráðalegudeild lokar þrengist enn frekar.“
Hlíf segir engum vísað frá sem þurfi á þjónustu að halda, en sjúklingarnir þurfi að bíða lengur. „Þar kemur þetta aðallega fram. Fólk þarf að bíða lengur á bráðamóttöku til að fá pláss á legudeild. Það er í raun ekkert svigrúm í kerfinu okkar.“
Álag sé nú þegar búið að aukast á bráðamóttökunni, þar sem biðtími fyrir pláss á legudeild lengist á sama tíma og tilfellum af umgangspestum fjölgi. Verkfallið komi því á mjög slæmum tíma, en læknar á flæðisviði spítalans, sem bráðamóttakan heyrir undir, eru meðal þeirra sem leggja niður störf í dag og næstu þrjá daga.
„Það er mikið álag á bráðamóttökunni. Það kemur auðvitað illa við því þetta hangir allt saman, verkfall á einum stað hefur áhrif á annan. Svigrúmið minnkar þar sem útskriftir og rannsóknir tefjast, en auk þess hefur rúmanýtingin verið há á spítalanum allt síðasta ár.“
Loks segist hún vonast til að samningar fari að nást, en ef ekki hefur samist í næstu viku munu læknar á lyflækningasviði leggja niður störf í fjóra daga.