Samningafundi slitið

Fundarhöld stóðu yfir hjá ríkissáttasemjara í dag.
Fundarhöld stóðu yfir hjá ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Fundi í kjaradeilu lækna og ríkisins var slitið rétt í þessu. Boðað hefur verið til fundar kl. 13 á morgun.

Aðilar hafa setið við samningaborðið frá því kl. 14 í dag en ljóst er að verkfall lækna heldur áfram á morgun þar sem samningar hafa ekki náðst.

„Þetta hefur gengið upp og ofan, getur maður sagt. Það eru ákveðin atriði sem hafa skýrst og önnur á móti orðið flóknari,“ sagði Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, síðdegis í gær um gang viðræðna í kjaradeilunni. Gunnar sagði mörg atriði þegar hafa verið afgreidd en tveir stærstu póstarnir væru eftir – launaþátturinn og vinnufyrirkomulagið.

Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar lækna, tók í sama streng og Gunnar og sagði þónokkuð standa útaf en unnið væri hörðum höndum að því að ná saman. „Það er búið að vinna mikla vinnu en það eru mikilvæg mál eftir,“ sagði Sigurveig.

En var hún farin að sjá ljós við enda ganganna? „Ég held það, en hvað það er langt í það veit ég ekki. Stundum veit maður ekki hvar ljósið er eða hvort það eru einhverjar erfiðar beygjur á leiðinni,“ sagði Sigurveig.

„Ég hef verulegar áhyggjur af ástandinu á meðan læknaverkfallið stendur,“ sagði Birgir Jakobsson landlæknir. „Áhrifin eru verst fyrir sjúklingana. Á meðan verkfallsaðgerðir standa yfir er þetta ófremdarástand. Þetta verður að leysa.“

Neyðarmönnun var á aðgerðasviði og flæðissviði Landspítalans í gær. Leitað var eftir undanþágum fyrir sérhæft starfsfólk í sérstökum tilvikum og fengust þær.

Á morgun, 6. janúar, munu verkfallsaðgerðir standa yfir á eftirfarandi stofnunum:

  • Aðgerðasviði Landspítala
  • Flæðissviði Landspítala
  • Sjúkratryggingum Íslands
  • Tryggingastofnun ríkisins
  • Greiningarstöð ríkisins
  • Heyrnar- og talmeinastöð Íslands
  • Vinnueftirliti ríkisins
  • Lyfjastofnun Íslands
  • Embætti landlæknis
  • Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert