Stutt í að lítrinn kosti minna en 200 krónur

mbl.is/Frikki

Bensínverð lækkaði enn frekar í upphafi árs og kostar lítrinn nú 203 krónur. Kemur lækkunin til vegna lækkunar skattprósentu virðisaukaskatts á bensín. Efra þrep virðisaukaskatts lækkaði úr 25,5% í 24% en lægra skatthlutfallið hækkaði hins vegar úr 7% í 11%. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), segir að lækkunin muni að öllum líkindum halda áfram og stutt sé í að 200 króna markið verði rofið. Verður þá fyrsti stafurinn í þriggja stafa tölunni að nýju einn eftir fimm ára útlegð en bensínið fór yfir 200 krónurnar í janúar 2010. Um miðjan júní á síðasta ári kostaði bensínlítrinn 250 krónur.

„Það er auðvitað sama bensínverð alls staðar hér á landi. Samkeppnin hér á landi er í formi afsláttardaga, þá taka olíufélögin við sér. Svo eru tilboðsdagar í kringum viðburði eins og handbolta, fótbolta eða árangur í Júróvisjón eða eitthvað álíka.“

Samkvæmt tölum FÍB var meðalálagning olíufélaganna fyrstu tvær vikurnar í desember af hverjum lítra 44,83 krónur sem Runólfur segir að hafi hækkað. „Við kvörtuðum yfir því að svigrúmið hefði ekki verið nýtt til fullnustu. Á sama tíma og verð fór að falla jókst álagning olíufélaga. Þetta er auðvitað frjáls álagning á markaði en við höfum áhyggjur af því að þetta ber öll einkenni fákeppni. Það er enginn á markaðnum sem sér hag sinn í því að stækka sína köku.“

Því fleiri því betra

Miklar líkur eru á að bandaríska lágvöruverðs-verslanakeðjan Costco opni hér á landi innan tíðar en hún hefur keypt 14.000 fermetra húsnæði við Kauptún í Garðabæ. Costco býður ekki einungis upp á matvöru því keðjan býður einnig upp á olíu og er orðrómur um að keðjan komi inn á íslenskan bensínmarkað með svokallaðri fjölorkustöð sem myndi bjóða upp á bensín, dísel og metan. „Þeir voru að falast eftir því að fá aðstöðu fyrir eldsneytissölu. Ég geri ráð fyrir því að þeir hafi fengið vilyrði frá Garðabæ um bensínsölu.“

Runólfur bendir á þegar Irving-feðgar komu hingað til lands fyrir 20 árum til að kanna aðstæður til olíusölu hér á landi hafi markaðurinn breyst – með tilkomu sjálfsafgreiðslu. „Þó þeir hafi ekki hafið sölu hér á landi eins og þeir ætluðu lækkuðu olíufélögin hér á landi verðið. Sögulega er margt jákvætt þegar þessi markaður er skoðaður. Vandræðin eru hinsvegar að byrja. Þeir sem eru fyrir á markaðnum gefa sínar lóðir ekki eftir og mörg sveitarfélög hafa talað það niður að fjölga eldsneytisstöðvum. Talað frekar um að fækka, ef eitthvað er, því á höfuðborgarsvæðinu til dæmis er óvenju hátt hlutfall eldsneytisútsölustöðva miðað við önnur lönd. En auðvitað væri það jákvætt ef fleiri væru um samkeppnina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert