Keppt í skotfimi í fyrsta sinn

Reykjavíkurleikarnir eru mikil íþróttahátíð.
Reykjavíkurleikarnir eru mikil íþróttahátíð. mbl.is/Golli

Gert er ráð fyrir að á fimmta hundrað erlendra gesta taki þátt í Alþjóðlegu Reykjavíkurleikunum sem fara fram í áttunda sinn dagana 15.-25. janúar næstkomandi. Þá er reiknað með að íslenskir þátttakendur verði alls um 2.000 talsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, sem stendur að leikunum í samstarfi við sérsambönd ÍSÍ, íþróttafélögin í Reykjavík og fleiri.

Keppt verður í 20 einstaklingsíþróttagreinum, þ.á m. skotfimi, sem er ný grein á leikunum í ár. Flestir mótshlutarnir fara fram í Laugardalnum og nágrenni en keppnin skiptist niður á tvær mótshelgar. Þá er ráðstefna um afreksíþróttir hluti af dagskrá Reykjavíkurleikanna.

„Margt af besta íþróttafólki okkar Íslendinga verður á meðal þátttakenda. Má þar nefna sundkonuna og íþróttakonu Reykjavíkur Eygló Ósk Gústafsdóttur, frjálsíþróttakonuna Anítu Hinriksdóttur og ólympíufarana Þormóð Jónsson júdókappa og Ásgeir Sigurgeirsson skotíþróttamann. Einnig eru margir mjög sterkir erlendir keppendur væntanlegir til landsins vegna leikanna í ýmsum greinum eins og t.d. heimsmeistarinn í bekkpressu kvenna, Ielja Strik frá Hollandi, og Mie Østergaard Nielsen, Evrópu- og heimsmeistari í sundi,“ segir í tilkynningunni.

Sjö beinar útsendingar verða frá leikunum á RÚV auk tveggja samantektarþátta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert