Landeyjahöfn of grunn fyrir Herjólf

Herjólfur sést hér í Landeyjahöfn á síðasta ári.
Herjólfur sést hér í Landeyjahöfn á síðasta ári. mbl.is/Sigurður Bogi

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur hefur siglt til Þorlákshafnar undanfarið þar sem dýpi hefur ekki verið nægjanlegt í Landeyjahöfn. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er beðið eftir tækifæri til að hefja dýpkun en veður hefur verið rysjótt og sjólag erfitt við höfnina.

Greint er frá þessu á vef Eyjafrétta. Þar segir, að dýpi við Landeyjahöfn hafi síðast verið mælt 27. desember síðastliðinn.

Eyjafréttir segjast hafa heimildir fyrir því að mesta dýpi á milli hausa hafnargarðanna hafi mælst þrír metrar en minnst 1,9 metrar. Þetta þýði að höfnin sé kolófær fyrir Herjólf, sem ristir 4,3 metra. Einnig sé höfnin ófær fyrir nýja ferju sem rætt sé um að smíða en hún eigi að rista 2,8 metra. Víkingur ristir 2,6 metra og getur því ekki heldur siglt um höfnina við þessar aðstæður.

Þá kemur fram, að Vegagerðin muni mæla dýpið í höfninni þegar aðstæður leyfi en undanfarið hafi hafnsögubáturinn Lóðsinn verið notaður til verksins.

„Lóðsinn ristir 3,2 metra og rétt komst inn um austanverða innsiglinguna 22. desember síðastliðinn. Þegar átti að sigla skipinu út í siglingamerkjum um miðja innsiglinguna vildi ekki betur til en svo að hafnsögubáturinn strandaði. Skipstjóra tókst þó að losa skipið með því að bakka aftur inn í höfnina. Í framhaldi var siglt sömu leið út um austanverða innsiglinguna þar sem dýpið er mest,“ segir í frétt á vef Eyjafrétta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert