Formaður Blaðamannafélags Íslands hafnar því á vef félagsins í dag að það hafi ekki beitt sér vegna þeirra hræringa sem verið hefur á fjölmiðlamarkaði á undanförnum mánuði og hafnar þar með gagnrýni sem fram kom í gær á fréttavefnum Kjarnanum.
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ, segir gagnrýnina fela í sér niðrandi umfjöllun um félagið og vísar þar til eftirfarandi orða í umfjöllun Kjarnans sem birtist í dálknum „Bakherbergið“: „Þessi afstaða Blaðamannafélagsins er orðin nokkuð algeng. Í huga margra blaðamanna er félagið lítið annað en þröngur rassvasafélagsskapur handfylli manna sem sinnir faglegum hagsmunum félagsmanna nánast ekkert, heldur einbeitir sér mest að því að leigja út sumarbústaði.“
Hjálmar segir umfjöllun Kjarnans vera ranga enda hafi Blaðamannafélagið m.a. staðið fyrir málþingi um ritstjórnarlegt frelsi og þrýst á Alþingi um lagasetningu í þeim efnum. Þá er það gagnrýnt að vegið sé að félaginu í nafnlausum dálki. „Ég gerði mér hærri hugmyndir um Kjarnann en að hann teldi sér akk í því að birta nafnlausa pistla um mikilsverð málefni.“
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, svarar í dag og segir að ekki hafi verið ætlunin að gera lítið úr Blaðamannafélaginu og störfum þess sem stéttarfélags heldur að benda á fagfélag blaðamanna bærði ekki á sér þegar gróflega væri vegið að starfsöryggi og sjálfstæði fjölmargra blaðamanna. Þá gefur hann lítið fyrir gagnrýni á nafnlaus skrif. Allir fjölmiðlar á Íslandi notist við slíka dálka sem séu á ábyrgð viðkomandi ritstjórnar.