„Ég er sáttur við niðurstöðuna“

Frá fundarhöldum samninganefndanna hjá Ríkissáttasemjara.
Frá fundarhöldum samninganefndanna hjá Ríkissáttasemjara. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég tel það líklegast að samingurinn verði samþykktur. Samninganefndin hefði auðvitað ekki skrifað undir nema hún teldi meiri líkur en minni á að hann yrði samþykktur,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, um nýjan kjarasamning lækna sem undirritaður var á fjórða tímanum í nótt. 

Þorbjörn telur að samningurinn verið kynntur fyrir félagsmönnum í næstu viku. 

„Ég er sáttur við niðurstöðuna. Þetta er auðvitað bara fyrsta skrefið sem þarf að taka til að leiðrétta laun og kjör lækna til þess að gera okkur samkeppnishæf við hinar norrænu þjóðirnar,“ segir Þorbjörn. „En ég held að þetta sé ágætt skref.“

Alls hafa verið haldnir 42 fundir í deilunni hjá ríkissáttasemjara. Þorbjörn segir það hafa komið sér á óvart hversu langan tíma viðræðurnar tóku og hversu þungar þær voru. 

„Þetta er auðvitað langur tími. Málinu var vísað til ríkissáttasemjara í júní. Ég held að það hafi verið orðið tímabært að ljúka málinu. En ég verð líka að segja að það kom mér á óvart hvað þetta er búið að vera þungt, en samningurinn er búinn að vera laus í rúma ellefu mánuði,“ segir hann.

„En ég er bara mjög feginn að þessu sé lokið og núna þarf að byrja að vinda ofan af vandamálunum sem hafa skapast í verkfallinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert