Fyrsta vafflan kom rjúkandi heit úr vöfflujárni ríkissáttasemjara kl. 3.25 í nótt, aðeins um hálftíma eftir að fréttir bárust af því að samningar hefðu náðst í kjaradeilu lækna. Þar með lauk samningaviðræðum sem staðið hafa yfir frá því í ágúst sl. og þrettán tíma maraþonfundi sem hófst kl. 13 í gær.
Viðsemjendur vildu ekki tjá sig um efnisatriði samningsins, þau yrðu ekki birt fyrr en búið væri að kynna kjarasamninginn fyrir læknum. Þó fékkst staðfest að hann felur í sér algjöra uppstokkun á fyrri samningi, m.a. hvað varðar launa- og vinnufyrirkomulag.
Undirritun samningsins hófst kl. 3.45 en þegar henni var lokið afhenti Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins, Gunnari Björnssyni, formanni samninganefndar ríkisins, bréf þar sem verkfallsaðgerðum lækna var formlega aflýst.
Spurð hvort samninganefnd lækna væri ánægð með samninginn sagði Sigurveig Pétursdóttir, formaður nefndarinnar, að hún væri sátt. Hún sagðist hafa trú á því að hann yrði samþykktur þegar hann yrði borinn undir lækna.
Sigurveig sagðist ekki geta svarað því hvort læknar hefðu þurft að slá mikið af kröfum sínum í viðræðunum.
Verkfallsaðgerðir lækna hófust í októberlok og hafa staðið yfir síðan með hléum. Áður en þær skullu á þótti óljóst hvaða áhrif þær myndu hafa, enda reynsla lækna af verkfalli engin.
Sigurveig segir lækna hafa lært ýmislegt síðastliðnar vikur og mánuði. „Það þarf að skoða í sambandi við verkfall að hlutirnir fari ekki úr böndunum; úr skorðum. Við náttúrlega berum ábyrgð á okkar starfi og viljum ekki að verkfall skaddi neinn. Það var margt á leið í mola vegna óánægju, m.a. með launakjör, og auðvitað var þrýstingur en við berum mikla umhyggju fyrir sjúklingum okkar og viljum ekki að þetta skaddi þá,“ segir hún.
Hún segir lækna tvímælalaust hafa fundið til ábyrgðar gagnvart sjúklingum sínum meðan á verkfallinu stóð.
„Ég er þokkalega sáttur,“ segir Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, um nýgerðan kjarasamning.
„Í fyrsta lagi náðist það markmið að ljúka þessu þannig að þær hremmingar sem hafa dunið á sjúklingum og sú röskun sem hefur orðið; henni er aflýst, að minnsta kosti í þetta skiptið. Og svo hitt að þessi samningur styður við ákveðin markmið ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, sem hún hefur verið að vinna að, m.a. með Læknafélaginu og Skurðlæknafélaginu, og mun birtast í yfirlýsingu á næstu dögum.“
Gunnar segir að koma muni í ljós hvort þær lausnir sem komist var að í þessum viðræðum muni nýtast í viðræðum ríkisins við skurðlækna, sem enn standa yfir. Næsti fundur í þeirri deilu er á dagskrá kl. 10 í dag.
Hvað nýjan kjarasamning áhrærir segir hann um miklar breytingar að ræða.
„Það má eiginlega kalla hann [samninginn] algjöra uppstokkun og það er bæði á launaákvörðunarfyrirkomulaginu og líka vinnufyrirkomulaginu. Þessir tveir þættir sem eru meginþættir kjarasamninga eru gjörbreyttir frá því sem fyrir var,“ segir Gunnar.
Hann segir báða aðila telja sig hafa haft nokkuð fyrir sig. „Maður fær aldrei allt sem maður vill,“ segir hann.
Rætt hefur verið að ef gengið yrði að ýtrustu kröfum lækna myndu aðrir gefa í í komandi kjaraviðræðum. Gunnar segist ekki getað tjáð sig um þær vangaveltur. „Ég get voða lítið kommentað á það, því ég veit ekki hvernig kröfugerðir annarra félaga eru í dag.“
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins, sagðist eiga von á því að læknar myndu samþykkja fyrirliggjandi samning.
„Ég er sáttur og vona að þetta sé fyrsta skrefið í að snúa við og bæta launakjör lækna. Og að þetta fullnægi að einhverju leyti þeim meginóskum sem við höfðum með nýjum samningi, sem voru að minnka brottflutning lækna og laða nýja sérfræðinga til landsins,“ segir hann.
Þorbjörn segir aðila hafa nálgast hvor annan eftir því sem leið á viðræðurnar, þrátt fyrir að afar lítið hafi gengið framan af.
Hann staðfestir að þar sem verkfallsaðgerðum hafi verið aflýst verði starfsemi á heilbrigðistengdum stofnunum með eðlilegu móti frá og með morgninum.
Magnús Pétursson ríkissáttasemjari sagði við undirritun kjarasamningsins að samningaviðræðurnar hefðu verið eftirminnilegar. Þá sagði hann í samtali við mbl.is að þær hefðu vissulega tekið langan tíma, en það orsakaðist meðal annars af því hversu flókinn samningurinn væri.