Rúta út af á Hellisheiði

Hellisheiði. Myndin er úr safni.
Hellisheiði. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stór rúta virðist hafa farið út af veginum á Hellisheiði en árvökull ökumaður segir að svo virðist sem tvær minni rútur séu komnar á staðinn til að flytja farþega á brott.

Lögreglan á Suðurlandi hafði ekki nánari upplýsingar um óhappið þegar eftir þeim var leitað en nokkur erill hefur verið hjá lögreglunni eftir hádegi.

Um klukkan 11 rákust saman fólksbifreið og hópferðabifreið á Biskupstungnabraut. Hópferðabifreiðin endaði utan vegar og þurfti að moka frá henni til að ná farþegum út.

20 manns voru í hópferðabifreiðinni en ökumaður fólksbifreiðarinnar var einn í bíl sínum. Átta eða níu voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar en aðrir í ferðamannahópnum héldu leið sinni áfram á Gullfoss og Geysi. Meiðsl voru talin minniháttar.

Slökkvilið var kallað út til að aðstoða við að losa ökumann fólksbifreiðarinnar úr bílnum.

Lögregla mat ástand bifreiðanna þannig að númerin voru tekin af þeim.

Loka þurfti veginum um stund á meðan aðgerðir stóðu yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert