„Fólk vill bara standa saman“

Pennar, blýantar og trélitir, og orðin: Ég er Charlie, eru …
Pennar, blýantar og trélitir, og orðin: Ég er Charlie, eru táknmyndir mótmæla gegn hroðaverkinu sem framið var gegn starfsmönnum Charlie Hebdo, lögreglu og tjáningarfrelsinu í París í gær. AFP

„Það eru allir eiginlega bara í sjokki. Ég tók eftir því áðan að það eru allir úti á götu að tala um pólitík og hvað eigi að gera næst og hvað eigi að gera núna. Þetta er bara algjört áfall fyrir Frakka.“

Þetta sagði Lea Gestsdóttir Gayet í samtali við mbl.is seint í gærkvöldi, um andrúmsloftið í höfuðborginni eftir fjöldamorðin á ritstjórnarskrifstofum háðtímaritsins Charlie Hebdo í gær.

Faðir Leu er íslenskur en móðir hennar frönsk. Hún er búsett í París og lagði leið sína á Lýðveldistorg, Place de la Republique, í gærkvöldi.

„Allir vinir mínir, fjölskyldan.. Maður er ekkert að grínast með þetta; maður heyrir í fréttum: „Þetta er mikið áfall“. En þetta er í alvöru áfall fyrir þjóðina. Og það var bara mjög gott að geta farið út í kvöld, farið á Place de la Republique, því þar voru svo margir. Og við fengum okkur rauðvín og töluðum um lífið, og það var bara gott að hitta annað fólk og sjá að þetta heldur áfram einhvern veginn. Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt að safnast saman og hitta annað fólk,“ sagði Lea í gærkvöldi.

Lea segir Frakka þekkta fyrir mótmæli, en meðal þeirra sem mættu til að sýna samstöðu á Lýðveldistorginu í gær, hafi verið nokkrir vina hennar sem voru að sækja fjöldafund í fyrsta sinn.

Orðin miklu flóknari barátta

Víðsvegar í Evrópu hafa yfirvöld verið á tánum undanfarin misseri vegna mögulegrar hryðjuverkaógnar og mikið rætt um Evrópubúa sem farið hafa til Sýrlands til að taka þátt í átökum þar í landi.

Spurð að því hvort að Frakkar hafi verið meðvitaðir um mögulega ógn bendir Lea á að röð „minni“ árása hafi átt sér stað í Frakklandi á síðasta ári, m.a. þegar ekið var á mann á jólamarkaði í desember. Fólk geti hins vegar ekki lifað lífi sínu í ótta.

„Maður veit að þetta er til, en maður skilur bara ekkert í þessu. Fyrst átti þetta að vera svo einfalt; þetta er bara eitthvað fólk sem býr erlendis, eitthvað öfgatrúarlið sem býr í Pakistan. En svo eru þetta Frakkar, fólk sem hefur alist upp í Frakklandi, sem er farið að fremja hryðjuverk. Ég sá í fréttunum að þetta eru bræður frá Frakklandi, af alsírskum uppruna en það skiptir ekki máli; þetta eru Frakkar. Sem hafa farið í gegnum franska skólakerfið. Þannig að þetta er orðin miklu flóknari barátta en maður hélt að þetta væri. Þetta er mjög flókið. Við erum eiginlega bara eitt spurningamerki, maður skilur ekkert í þessu,“ segir hún.

Jafnrétti í gríni Charlie Hebdo - sjónarsviptir af starfsmönnum blaðsins

Hvað varðar Charlie Hebdo segir Lea blaðið afar mikilvægt í hugum Frakka. Það sé ekki endilega víðlesið en fólk fylgist með því hvað er á forsíðunni. Blaðið hét á einum tíma Hara-Kiri Hebdo, en var bannað, og var þá brugðið á það ráð að hefja útgáfu undir öðru nafni, Charlie Hebdo, sem er m.a. tilvísun í Charles de Gaulle forseta, að sögn Leu.

„Þetta er eiginlega anarkískt blað; þau gera lítið úr öllu. Það er jafnrétti í gríninu, þar er gert grín að öllum,“ segir Lea. Hún segir blaðið hluta af franskri menningu og fólki þyki vænt um það, jafnvel þótt það sé ekki endilega sammála því sem í því birtist.

Meðal þeirra sem voru myrtir í árásinni voru fjórir skopmyndateiknarar sem Lea segir hafa verið í miklum metum. Þeir hafi komið víðar við en á Charlie Hebdo, m.a. gefið út bækur. Einn þessara manna, og sá frægasti að sögn Leu, var Georges Wolinski, sem sagði eitt sinn frá þvi þegar hann hitti öfgatrúaða múslíma sem hann hafði skopast að.

„Þeir spurðu: Af hverju gerir þú grín að okkur? Og hann svarað: Ég geri bara grín að öllum trúarbrögðum því ég trúi ekki,“ segir Lea, sem horfði á frásögn Wolinski í sjónvarpinu í gær. „Og svo sagði Wolinski: Af hverju gerið þið ekki grín að okkur, af hverju gerið þið ekki grín að trúleysingjum, af hverju eruð þið svona reiðir? Hann sagði að maðurinn hefði ekki náð að segja neitt.“

Lea segir sjónarsviptir af mönnunum.

„Mamma og vinir hennar ólust upp með þessu fólki. Þetta eru menn sem hafa alltaf sagt sína skoðun og.. Maður þekkir bara þetta fólk. Þetta er svona fólk sem maður þekkir, og það er skrýtið þegar það deyr. Sérstaklega svona margir í einu, og á svona hræðilegan hátt,“ segir hún.

„Fólk vill bara standa saman“

Lea segist ekki hafa orðið vör við mikinn rasisma í Frakklandi en bendir á að Þjóðfylking Marine le Pen hafi verið að sækja í sig veðrið.

„Núna er vinstriflokkur við völd en hann er ekki að standa sig. Hollande er svo óvinsæll, hægri flokkurinn er bara að bjóða upp á Sarkozy sem hefur verið forseti, þannig að í rauninni er eini kosturinn sem er eftir le Pen, og þess vegna er kannski verið að tala um aukinn rasisma í Frakklandi; því hún virðist síðasti kosturinn,“ segir Lea um möguleg áhrif hryðjuverkaárásarinnar á frönsk stjórnmál og forsetakosningarnar 2017.

„Það eru alltaf fleiri og fleiri að ákveða að kjósa hana, en ekkert endilega af því að fólkið styður hana, heldur af því að fólki finnst hinir ekki geta neitt. Það er frekar þannig. Að vinstri flokkurinn geri ekki neitt og hægri flokkurinn hafi verið lélegur. Hver er eftir? Le Pen, og auðvitað hjálpar það henni þegar eitthvað svona gerist.“

Lea segir mikla samstöðu ríkja í Frakklandi og þar sem aðalmálið að standa vörð um tjáningarfrelsið. En er fólk hrætt?

„Maður verður náttúrulega hræddur fyrst. Maður var náttúrulega hræddur, en að hittast.. Þá einhvern veginn róast maður um leið. Þetta er bæði og. Ég tala auðvitað bara um París, ég veit ekki hvernig stemningin er í öðrum borgum,“ segir Lea, en París sé mjög opin borg og ekkert um hatur. „Fólk vill bara standa saman,“ segir hún.

Lea Gestsdóttir Gayet er búsett í París.
Lea Gestsdóttir Gayet er búsett í París.
Belgísku skopmyndateiknararnir Gal og Marec halda á borðum sem á …
Belgísku skopmyndateiknararnir Gal og Marec halda á borðum sem á stendur: Ég er Charlie, og mynd af kollega þeirra Georges Wolinski, sem var myrtur í gær. AFP
Flaggað í hálfa stöng á Elysee-höll í dag.
Flaggað í hálfa stöng á Elysee-höll í dag. AFP
Kerti og trélitir fyrir utan sendiráð Frakklands í Helsinki í …
Kerti og trélitir fyrir utan sendiráð Frakklands í Helsinki í Finnlandi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert