Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur ekki fengið upplýsingar um hver niðurstaðan varð í nýgerðum kjarasamningi lækna og ríkisins.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segist hann aðspurður um áhrif hans á komandi kjaraviðræður, að ljóst sé út frá kröfum lækna og yfirlýsingum að þar sé um kostnaðarramma að ræða sem sé langt umfram það sem rætt hefur verið um á almennum vinnumarkaði og langt umfram það sem samræmst geti verðlagsstöðugleika.
„Ég tel mjög brýnt að það verði einfaldlega unnið áfram út frá þeim áherslum að þarna hafi verið um mjög sértækt vandamál að ræða sem hafi einfaldlega orðið að taka á og geti ekki á neinn hátt orðið að fyrirmynd að kröfugerðum annarra hópa,“ segir Þorsteinn.