„Ofbeldi er aldrei svar“

Hátt á þriðja hundrað manns komu sam­an í garðinum við franska sendi­ráðið klukk­an 18 í kvöld. Franska fán­an­um og fána Evr­ópu­sam­bands­ins var flaggað í hálfa stöng og við fánastang­irn­ar lögðu gest­ir blóm, skrif­færi og kerti.

Tólf stór­um útikert­um var raðað við stang­irn­ar, einu fyr­ir hvert þeirra sem féllu í árás­inni í gær. Þá röðuðu gest­ir einnig spritt­kert­um sem mynduðu orðið Charlie og á eft­ir fylgdi hjarta.

„Við erum hér til að styðja frönsku þjóðina vegna þess sem gerðist í gær,“ sagði Abel í sam­tali við blaðamann mbl.is. „Þetta var hræðilegt og við erum mjög sorg­mædd. Við erum hér til að segja: áfram frelsið og fólk má skrifa það sem það vill skrifa, tigna það sem það vill tigna. Of­beldi er aldrei svar.“

Sendi­herra Frakk­lands á Íslandi ávarpaði hóp­inn á ensku og frönsku. Þegar hann hafði lokið máli sínu hrópuðu viðstadd­ir „Charlie, Charlie“ í rúm­lega mín­útu.

Nokkr­ir héldu skrif­fær­um á loft og þá höfðu marg­ir meðferðis slag­orðið Je Suis Charlie eða Ég er Charlie.

Fund­ar­gest­ir voru hvatt­ir til að mæta með penna eða blý­anta, en með skrif­fær­um hafa morðin á skop­mynda­teikn­ur­um verið for­dæmd á tákn­ræn­an hátt.

Rúm­lega hundrað þúsund manns komu sam­an á sam­stöðufundi í Par­ís í gær­kvöldi. Þá var einnig boðað til sam­bæri­legra funda í borg­um og bæj­um í land­inu og í öðrum lönd­um heims­ins. Ráðist var inn á rit­stjórn­ar­skrif­stof­ur franska ádeilu­rits­ins Charlie Hebdo í Par­ís í gær­morg­un og kostaði árás­in tólf manns lífið.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert