VR hefur stefnt íslenska ríkinu vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem komu til framkvæmda um áramótin. Stefnan var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 2. janúar sl. og hefur félagið óskað eftir flýtimeðferð.
VR telur að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að skerða rétt félagsmanna til atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið um sex mánuði, eins og gert var með breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar. „Skerðing á bótarétti atvinnuleysistrygginga, með nær engum fyrirvara, kippir fótunum undan fjölda félagsmanna VR. Okkar hlutverk er að verja réttindi félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra. Ábyrgð okkar er skýr, við sáum engan annan kost í stöðunni en höfða mál til að fá þessari ákvörðun hnekkt,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR og varaforseti ASÍ.
Ólafía bendir á að árið 2006, þegar bótatímabilið var stytt úr fimm árum í þrjú, hafi löggjafinn séð til þess að atvinnulausum var gefinn aðlögunartími þannig að ekki kæmi til afturvirkrar skerðingar. Svo sé ekki raunin nú.