GPS stöðin í öskju Bárðarbungu sýnir að askjan heldur áfram að síga. Dregið hefur úr hraða sigsins og er það nú um 10-15 cm á dag.
Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi vísindaráðs almannavarna í dag.
Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Holuhrauni síðustu vikurnar. Ágætlega sést til gossins á vefmyndavélum og virðist svipaður gangur í því og verið hefur undanfarið.
Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu er enn öflug, en heldur hefur þó dregið úr henni. Um 100 jarðskjálfta hafa mælst við Bárðarbungu frá síðasta vísindamannaráðsfundi, 6. janúar. Á annan tug skjálfta voru á stærðarbilinu 4,0-5,0. Stærsti skjálftinn varð í gær, 8. janúar, kl. 18:47 og mældist hann 5,1 að stærð. Nokkur skjálftavirkni var í kvikuganginum á þessu tímabili og voru þeir allir undir tveimur stigum að stærð.
GPS mælingar við norðurjaðar Vatnajökuls sýna áframhaldandi hægan samdrátt í átt að Bárðarbungu. Enn dregur þó úr hraða samdráttarins.