Algengt er að almannatenglar séu ráðnir til ráðgjafar í kjaradeilum á borð við þá sem nýlega lauk með samningi lækna og ríkisins. Hlutverk þeirra er að reyna að hafa áhrif á það með hvaða hætti upplýsingar koma fram og reyna að stýra mynd almennings af hagsmunaaðilum meðan á kjaraviðræðum stendur.
„Sem læknir viltu alltaf hjálpa fólki. Því hlýtur að vera siðferðislega erfitt að vera læknir sem neitar að framkvæma skurðaðgerð nema þú fáir launahækkun. En þetta hefur spilast mjög vel fyrir lækna og verið vel framkvæmt þegar horft er á fjölmiðlaumfjöllun um deiluna,“ segir Andrés Jónsson, almannatengill hjá Góðum samskiptum.
Að sögn Andrésar hefur hann komið að kjaradeilum sem ráðgjafi og segir það algengt að hagsmunaaðilar nýti sér þjónustu þeirra til þess að koma skilaboðum á framfæri.
„Eitt fyrsta verkefnið mitt sem almannatengill fyrir tíu árum sneri að því að þrýsta á um nýja viðbyggingu hjá BUGL. Heilbrigðisráðherra á þeim tíma vildi hana ekki. En við fórum með sjúklinga og aðstandendur í fjölmiðla í heila viku þar til skrifað var undir samning um að byggja þetta,“ segir Andrés.
Hann bendir á að í kjaradeilum reki báðir aðilar, þ.e. stjórnvöld og hagsmunaaðilar, upplýsingastefnu.
„Sveitarfélög og ríki reka sína fjölmiðlastefnu og í raun fer fram fjölmiðlastríð um ímyndina þeirra í milli. Þetta er eins og að vera í réttarsal þar sem báðir aðilar eru með lögfræðing,“ segir Andrés.
Gunnar Steinn Pálsson, almannatengill, var læknum til ráðgjafar í kjaradeilunni við ríkið. Hann telur eðlilegt að læknar hafi sótt sér utanaðkomandi ráðgjöf. Sérstaklega í ljósi þess að læknar hafa ekki áður gripið til verkfallsaðgerða. „Að mínu viti snýst hlutverk almannatengils ekki um að ota hlutum í fjölmiðla. Heldur snýst þetta um taktík og þá hvað á að segja, hvenær og hvernig,“ segir Gunnar Steinn.
Meðan á verkfallsaðgerðum lækna stóð birtust reglulega fregnir af læknum sem sögðu upp störfum á Landspítalanum og sjúklingum sem ekki komust í skurðaðgerðir. Þá var viðkvæðið gjarnan að læknar myndu fara úr landi nema laun myndu hækka verulega. Í könnun Capacent frá því í byrjun desember kom fram að átta af hverjum tíu landsmönnum studdu verkfallsaðgerðirnar og gefur það til kynna að kröfur lækna hafi notið mikillar samúðar hjá landsmönnum.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hafði enginn læknir dregið uppsögn sína til baka en flestir þeirra settu þann fyrirvara á uppsögn sína að hún myndi verða dregin til baka ef viðunandi launakjör næðust. Enn á eftir að kynna læknum samninginn.
Gunnar Steinn segist hafa átt í daglegum samskiptum við lækna meðan á deilunni stóð. „Þegar menn voru komir í djúpu laugina og umfjöllun birtist daglega í fjölmiðlum um verkfallið og kröfur lækna, þá átti ég í reglulegum samskiptum við lækna. Samræðurnar snerust um það hvort og hvernig ætti að svara hlutunum. Ég er einn af mörgum sem lögðu þanka í púkkið,“ segir Gunnar.
Hann segir að í sumum tilfellum sé betra að tjá sig ekki. Til að mynda var ákveðið að verða ekki við áskorun fjármálaráðherra um að læknar myndu opinbera launakröfur sínar. „Læknar þurftu að taka afstöðu til þessarar áskorunar, en ákváðu að gera það ekki enda mér vitanlega engin fordæmi fyrir því að slíkt sé gert í kjaraviðræðum,“ segir Gunnar.
Hann segir að ekki sé nýtt að almannatenglar komi að slíkum verkefnum. „Þetta er að verða algengara. Verkfallsbarátta er í eðli sínu ekkert ólík því að vinna með stjórnmálaflokkum, eða frambjóðendum. Persónulega þætti mér út í hött ef læknar í verkfalli myndu ekki leita sér ráðgjafar um samskipti sín við fjölmiðla. Sérstaklega þar sem þeir eru að glíma við stjórnmálamenn sem eru vanir kastljósi fjölmiðla,“ segir Gunnar.
Andrés bendir á að hlutverk fjölmiðla sé að meta það hvað eigi erindi þangað. Aðspurður hvort ekki sé hætt við því að sannleikurinn afbakist í slíku umhverfi, telur Andrés svo ekki vera. „Auðvitað er sannleikurinn til en báðir aðilar þurfa á því að halda að koma sinni hlið á framfæri,“ segir hann.