Ólga innan Samtaka ferðaþjónustunnar

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri CenterHotels, segir að menn séu ósáttir með …
Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri CenterHotels, segir að menn séu ósáttir með afgreiðslu stjórnar SAF og íhugi nú margir úrsögn úr félaginu.

Í haust tilkynnti iðnaðar- og viðskiptaráðherra nýtt frumvarp um náttúrupassa sem verður tekið fyrir á Alþingi núna seinna í janúar. Mikil umræða hefur staðið um málið undanfarin ár og síðasta sumar lögðu Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) í mikla úttek meðal félagsmanna sinna á hvaða kostur væri ákjósanlegastur. Niðurstaðan var að komugjöld væri álitlegasti kosturinn, en í desember ákvað stjórn SAF að leggja frekar til að gistináttagjald yrði hækkað.

Hefur þetta valdið talsverðum deilum innan félagsins og þá sérstaklega hjá gistiþjónustuaðilum. Sjá þeir jafnvel fram á að segja sig úr félaginu og stofna ný hagsmunasamtök vegna málsins.

Félagsmenn vildu komugjöld

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri CenterHotels, segir að vinna stjórnar SAF frá árinu 2013-2014 um að kanna hug félagsmanna hafi verið mjög fagleg og mikill tími hafi verið settur í verkið. Niðurstaða félagsmanna var að komugjöld yrðu í fyrsta sæti, meðan hækkun gistináttagjalds kom í fjórða sætið og náttúrupassinn í því sjötta.

Icelandair hefur ýtt á hærri gistináttaskatt

„Það var lagt í mjög mikla vinnu og mér finnst ekki trúverðugt eða faglegt af nýrri stjórn SAF að strika yfir þrjá efstu liðina og segja að hótelin eigi að taka þetta á sig með hækkuðum gistináttaskatti,“ segir Kristófer.

Ljóst sé því hver skoðun meirihluta félagsmanna sé, en stærsti einstaka aðildarfélagið, Icelandair hefur þó lýst sig mótfallið komugjöldunum. Það gerði forstjóri þess, Björgólfur Jóhannsson, meðal annars í útvarpsþættinum Í vikulokin, síðasta laugardag.

Kristófer segir það skjóta skökku við að hagsmunasamtök tali fyrir skattahækkunum á lítinn hóp félagsmanna með þessum hætti. Þá segir hann þetta í andstöðu við það sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað fyrir kosningar um að ekki yrði hækkaðir skattar á fyrirtæki og allir nýir skattar yrðu felldir niður, sem lögleiddir voru á síðasta kjörtímabili.

Hræðist „gylliboð“

Tillagan sem SAF lagði fram við ráðherra fól í sér að hugmyndum um náttúrupassa yrði hent og að auknar byrðar yrðu settar á hótelin til að mæta þeim tekjustofni. Í dag er gistináttagjaldið 100 krónur á gistieiningu án virðisaukaskatts, en Kristófer gerir ráð fyrir að horft sé á a.m.k. þreföldun á því gjaldi miðað við hugmyndir SAF. „Ég óttast ráðherra eigi erfitt með að standast það þegar svona gylliboð kemur frá hagsmunasamtökunum okkar“ segir hann.

SAF samanstendur af sjö hagsmunahópum úr ferðaþjónustunni. Þar er gistiþjónustan, bílaleigur, hópferðafyrirtæki, afþreyingariðnaðurinn, flugið, ferðaskrifstofur og veitingageirinn. Kristófer segir að hópurinn hafi í heild tekið þá ákvörðun að leggja til komugjöld en ný stjórn sem tók við, með Grím Sæmundsson, forstjóra Bláa Lónsins í forsvari, hafi tekið einhliða ákvörðun um að styðja frekar gistináttaskattinn en komugjaldið.

Munu segja sig úr félaginu

Með þessu áframhaldi segir Kristófer að gistiþjónustunni sé varla stætt innan SAF, enda sé félagið í raun að vinna gegn hagsmunum hótelanna. Segist hann vita til þess að þegar hafi einn aðili sagt sig úr félaginu og að ef SAF muni í auknum mæli ýta undir gistináttaskattinn, þá muni fleiri, þar á meðal hann, segja sig úr félaginu.

Annað mál sem hefur plagað gistiþjónustuna undanfarin ár er svört atvinnustarfsemi, m.a. í gegnum Airbnb og álíka þjónustu, þar sem hver sem er getur boðið upp á íbúðaleigu á netinu. Kristófer segir að það hafi verið ótrúlegt að horfa upp á hvað það hafi verið telið á þessu máli með miklum vettlingatökum, meðal annars af SAF.

„Mín von er að ráðherrann haldi sig við markaða stefnu í gjaldtökumálinu, en geri þær breytingar á frumvarpinu að gjaldið fyrir náttúrupassann verði rukkað við komu til landsins,“ segir Kristófer. 

Ferðaþjónustana er orðin stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, en töluverðar deilur standa …
Ferðaþjónustana er orðin stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, en töluverðar deilur standa nú yfir um hvernig best sé að skattleggja greinina og þá aðallega varðandi náttúrugjald, komugjald eða gistináttaskatt. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert