Óskráðir árásarrifflar hér á landi

Árásarmennirnir í París báru Kalashnikov árásarriffla.
Árásarmennirnir í París báru Kalashnikov árásarriffla. AFP

Ítrekað hafa lögregluyfirvöld á Íslandi fengið upplýsingar um að hingað til lands hafi borist vélbyssur með rússneskum togurum, meðal annars AK47 árásarrifflar. Það er sama tegund og notuð var í hryðjuverkaárásinni í París á miðvikudag.

Þetta kemur fram í grein lögreglumanns í nýjasta tölublaði Lögreglublaðsins. Þar segir einnig að um 73 þúsund vopn séu skráð hér á landi en talið sé að nokkrir tugir þúsunda skotvopna séu óskráð. „Aðgangur fólks og ástand þeirra sem hafa aðgang að þessum tæplega hundrað þúsund vopnum hefur lögregla litlar upplýsingar um. Hluti þessara vopna eru öflugir rifflar með stóru kaliberi.“

Lögreglumaðurinn Runólfur Þórhallsson skrifar greinina og segir meðal annars einnig hafi hluta þessara vopna verið breytt af eigendum sínum, þar á meðal haglabyssur. „Þetta eru öflug vopn sem geta valdið miklum skaða á skömmum tíma.“

Hafa áhyggjur af alvarlegum atburðum

Greinin er ekki skrifuð í tilefni af hryðjuverkaárásinni í París heldur vegna umræðu um vélbyssuvæðingu lögregluliðsins íslenska. Ýmislegt í henni gæti hins vegar átt erindi í umræðu hér á landi í kjölfar árásarinnar.

Runólfur segir það staðreynd að íslenskir lögreglumenn vilji alls ekki bera skotvopn daglega og deili þeirri skoðun með borgurum landsins. „En það þarf að gæta þess að í neyðartilfellum sé aðgengi að skotvopnum tryggt á þann hátt að það henti sem best hagsmunum lögreglumanna og borgaranna.“

Hann segir að það séu hagsmunir almennings að lögregla hafi búnað og þekkingu til að bregðast við í neyðartilvikum. „Hryðjuverk og fjöldamorð hafa ítrekað dunið yfir nágrannaþjóðir okkar á undanförnum árum. Það er ríkt í Íslendingum að halda að ekkert slæmt geti gerst á Íslandi ásamt þeirri tilhneigingu að gera lítið úr alvarlegum atburðum. Lögreglumenn hafa hins vegar áhyggjur af því hvort slíkir atburðir geti hent hér á landi.“

Runólfur segir að það sé frumskylda lögreglu að verja almenning til þess þarf lögregla einnig að geta varið sig. „Hvort það sé afskaplega lítill möguleiki á því að þessar aðstæður geti komið upp hér á landi er algert aukaatriði. Það er möguleiki þó lítill sé og lögregla verður að geta brugðist við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert