„Stemningin er hræðileg en samt einhvernveginn á jákvæðan hátt. Fólk er með tárin í augunum úti á götu,“ segir Lea Gestsdóttir Gayet sem er búsett í París. Hún var stödd fyrir utan skrifstofur Charlie Hebdo, þar sem hryðjuverkaárásin átti sér stað sl. miðvikudag, þegar mbl.is náði tali af henni.
„Ég var að kveikja á kerti þar sem þessi lögreglumaður var skotinn. Ég hef aldrei upplifað annað eins. Þetta er sorgarstund í borginni,“ segir Lea. Hún segir lögreglumenn hafa verið á svæðinu þar sem þeir horfðu á hvar samstarfsfélagi þeirra var drepinn. „Þetta er hræðilegt, ég á engin önnur orð.“
Hún segir allt vera girt af í kring um skrifstofur Charlie Hebdo. Margir hafa lagt leið sína þangað til að kveikja á kertum fyrir fórnarlömb árásinnar. „Það fór skot í gegnum rúðu hérna og það er búið að setja blóm í gatið þar sem kúlan fór í gegn.“
Lea segir að hún og vinkona hennar hafi farið út og fengið sér rauðvínsglas í gærkvöldi. Þar hafi allir rætt um atburði vikunnar. Lífið er stopp í París. Veitingamaðurinn á staðnum færði öllum pakka og segir Lea það vera einkennandi fyrir stemninguna, allir leggi meiri metnað í það að vera almennilegir við aðra og kærleiknum haldið á lofti.
„Yfirleitt þegar þú rekst í einhver í lestinni þá verða allir pirraðir eða æstir,“ segir Lea en núna keppist fólk við að afsaka sig við sömu aðstæður.
„Það er mjög tómt í metró og bara í lestunum yfir höfuð. Fyrsti útsöludagurinn er í dag og ég leit út um gluggann hálf tólf, tólf og það var allt tómt,“ segir Lea. Hún telur að ástæðan fyrir fámenni í verslunum sé þó fyrst og fremst áhugaleysi en ekki hræðsla.
„Þetta er söguleg stund í Frakklandi, andrúmsloftið. Það eru allir eru að reyna að þegja um þessi pólitísku mál og standa saman, ég er ekki að segja að það þegi allir en það eru allir að reyna.“
Á morgun verður gengið frá Lýðveldistorginu í París til minningar um fórnarlömbin sem féllu í hryðjuverkaárásinni.
„Það skiptir máli að allir komi á morgun, að allir kaupi blaðið á miðvikudaginn, allir kaupi áskrift að Charlie Hebdo og svo getur fólk farið að tala um pólitík,“ segir Lea.
„Þetta snýst um tjáningarfrelsi. Ég þoli ekki þegar fólk segir að einhver hafi kannski móðgast. Mér er sama, að byrja að segja að einhver hafi móðgast er eins og að segja að stelpa í stuttu pilsi hafi kannski átt skilið að vera nauðgað. Það er ekkert ef einhver var móðgaður. Þetta er tjáningarfrelsi og punktur. Það er engin komma eða ef á eftir því,“ segir Lea.
Aðspurð um hvort fólk sé hrætt í París segir hún fólkið þar vera ótrúlegt.
„Maður er smeykur, sem mannvera, en fólkið hér vill ekki tapa þessu einhvernvegin og Frakkar fara strax að djóka: Hvað ætli þeir séu að gera upp í himnaríki, gera grín að guði?“ segir Lea og bætir við að teiknararnir hafi verið algjörir trúleysingjar.
„Maður er frekar tómur í maganum og tómur í hjartanu og við þurfum bara að sjá annað fólk og sjá ástæðu til að halda áfram. Það voru menn skotnir hérna í París af því að þeir voru að teikna. Þeir voru að gera grín að öfgamönnum, ekki múslimum,“ segir Lea.